Ljóðlist og vídeó verða í öndvegi í nýrri sjö þátta sjónvarpsseríu sem hefur göngu sína á N4 á þriðjudaginn, 15. júní. Ásgeir H. Ingólfsson er umsjónarmaður.

„Mér vitanlega hefur ekki verið mikið um ljóðaþætti með lifandi myndum í íslensku sjónvarpi,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld, sem er umsjónarmaður nýrrar þáttaraðar á N4. Hann er Akureyringur en býr líka í Prag í Tékklandi og er þar þegar þetta viðtal er tekið.

„Ég var heima á Akureyri í fyrstu bylgju heimsfaraldursins, þá voru auglýstir Covid-styrkir hjá Bókmenntasjóði og við vorum nokkur skáld fyrir norðan sem sóttum um og bjuggum til dagskrá þar sem vídeóljóð voru hluti af heildinni.

Ég fór aftur til Prag um sumarið, svo átti að keyra á ljóðahátíð með haustinu. Einmitt þegar ég kom heim síðsumars og losnaði úr sóttkví var bylgja númer tvö skollin á og við vorum að vandræðast þar til við duttum niður á þá hugmynd að vera með ljóðaþætti á N4.“

Þættirnir eru sjö, þar koma fjórtán skáld við sögu og sjö leikstjórar, að sögn Ásgeirs. „Fyrir utan það sem tekið var hér í Prag var ég í fjarskiptum við leikstjórana. Gaf þeim öllum nokkurn veginn sömu leiðbeiningar og það er gaman að sjá hversu ólíkar leiðir þeir fóru, sem er bara frábært,“ lýsir hann.

Ásgeir segir ljóðasenuna í Prag með sterkari tengsl við aðrar listgreinar en tíðkist hér á landi. „Það er sjaldgæft að lesin séu ljóð hér án þess að tónlistarmaður spili undir fyrir þá sem vilja. Ég hef verið að vinna líka með vídeólistamönnum og langaði að flytja þá hefð til Íslands.“

Í lokin forvitnast ég um hvað hann sé að gera í Prag. „Vinnan mín er langmest á Íslandi, ég er í blaðamennsku, bæði fyrir Stundina og Lestina á RÚV, svo er ég með eigið blogg, Menningarsmygl, og í alls konar textaverkefnum sem detta inn, þýðingum og yfirlestri.“