Nýlega kom út geisladiskur með ljóðasöng Sigurðar Bragasonar, barítón. Það er Hjálmur Sighvatsson sem leikur undir á píanó. Á disknum eru 26 lög eftir Jón Leifs, Árna Thorsteinsson, Sigvalda Kaldalóns, Karl O. Runólfsson, Árna Björnsson, Jón Ásgeirsson, Áskel Másson, Sigurð Bragason og Tryggva M. Baldvinsson ásamt mörgu því besta sem evrópsk sönglagahefð hefur upp á að bjóða, svo sem verk eftir Tsjaikovski, Beethoven, Schubert, Schumann, Liszt, Strauss og Verdi.

„Tilurðin er sú að okkur var boðið að koma fram í London, New York og Wahington með íslenskt prógram,“ segir Sigurður.“ Samhliða var okkur boðið að vera með aðra dagskrá með rússneskum lögum og lögum eftir Liszt, Tsjaikovski, Rachmaninoff og fleiri. „Þetta varð til þess að okkur langaði til að hljóðrita þetta efni.“ Sigurður segir lögin flutt á frummálunum þó efnið sé á íslensku í bókinni sem fylgir. Diskurinn er einnig gefinn út í Þýskalandi þar sem hann er tekinn upp, en það er Penninn-Eymundsson sem dreifir honum hérlendis.

Sigurður er búsettur hérlendis en ferðast utan til tónleikahalds. „Við bjuggum á Ítalíu þegar ég var í söngnámi en fluttum svo heim.“ Hann segir formið, það er ljóðasöngur, þægilegra en óperuformið, einkum vegna þess að ópera krefst langs æfingatíma. „Ef við sækjum til dæmis listahátíð í öðru landi þá er það kannski ekki nema fimm daga ferð,“ segir Sigurður. „Hjálmur fylgir mér oft á þessum ferðum en einnig hefur líka Vovka Askhenazy leikið undir á tónleikum og sömuleiðis Bjarni Þ. Jónatansson og Ólafur Elíasson.“

Sigurður segir geisladiska með sígildri tónlist virðast halda velli lengur en diska með annars konar tónlist. „Það er enn blómleg verslun með geisladiska með sígildri tónlist á Ítalíu og í Þýskalandi,“ segir Sigurður. „Það er eins og þeir hafi ekki farið jafnhratt í gegnum breytinguna yfir í stafrænt efni eins og víða annars staðar.“

Hann segir viðtökurnar hafi verið mjög góðar. „Margir setja sig í samband og óska eftir að fá diskinn sendan. Salan í verslunum hefur líka gengið ágætlega.“

Sigurður segir að þetta efni sé líka aðgengilegt á stafrænu formi. „Þessi þýski útgefandi hefur sett efnið á Youtube, Spotify, Amason og víðar á stafrænu formi. Í framhaldinu hefur okkur svo verið boðið að halda tónleika í Stuttgart, Bonn og víðar sem ekki tímabært að tilgreina.“

Á diskinum eru einnig ný lög eftir Sigurð sem hann útsetur sjálfur. „Þegar ég var á Ítalíu að læra að syngja, lærði ég líka tónsmíðar. Í gegnum tíðina hef ég verið að semja tónlist, þegar ég hef haft tíma. Það er svolítið gaman að því að vera einnig með lög eftir sig á disknum,“ segir Sigurður að lokum.