Þó fátt sé um ferðamenn núna er framtíð Laugavegsins björt, í mínum huga. Þegar komið verður bóluefni við kórónaveirunni þá verður mikill þorsti í að ferðast aftur og Ísland verður alltaf ákjósanlegur staður, vegna þess sem það hefur upp á að bjóða,“ segir Ingimar Þórhallsson, kaupmaður og ljósmyndari í Nomad á horni Laugavegs og Frakkastígs. Hann verslar með smávarning sem hefur heillað bæði ferðamenn og heimafólk og við val á honum kveðst hann sækja innblástur bæði í náttúruna og listnámið sem hann stundaði í London. „Nomad er vísun í manninn sem elskar að ferðast í náttúrunni og velur hluti sem hann getur tekið með sér hvert sem er. Hér finna Íslendingar líka hentugar gjafir við öll tækifæri eins og afmæli, útskriftir og fleiri.

„Janúar var frábær, mikil vetrarferðamennska í gangi, svo fór COVID-19 að stinga sér niður í Evrópu og um miðjan mars stoppaði allt. Það var hávetur, dimmt og Íslendingar fóru heim að baka en voru voða lítið á ferðinni,“ segir Ingimar þegar hann spólar í huganum yfir árið 2020. Hann kveðst hafa verið sendur í sóttkví og notað tímann til að fullgera og opna vefverslun, sem hann hafði verið með í smíðum. „Svo fór salan að aukast aftur í miðbænum í lok júní og júlí var ansi fínn og sömuleiðis ágúst framan af.“

En hvernig komu fréttir um hertar reglur við landamærin við Ingimar og miðbæinn? „Þetta var bara eitthvað sem þurfti að gera. Heilsa þjóðarinnar er í fyrirrúmi. Allt annað er aukaatriði. Maður treystir þríeykinu til að taka réttar ákvarðanir. Það hefur staðið sig með mikilli prýði til þessa. Auðvitað verður þetta erfitt fyrir marga og haustið verður ábyggilega rólegt.“

Hann kveðst þó vona að það lifni yfir Laugaveginum fyrir jólin. Hvað finnst honum um lokun bílaumferðar um hluta hans? „Ég held að göngugatan höfði frekar til yngra fólks og ég skil vel sjónarmið eldra fólks sem er vant því að vera á bíl og geta lagt fyrir utan búðina sem það ætlar í. Það getur líka verið kalt í miðbænum í norðanáttinni, en kannski er þetta spurning um að læra betur á bílastæðahúsin.“

Ingimar kveðst stíla vöruúrvalið í Nomad upp á heimafólk meðan fáir koma gegnum landamærin. „Ferðafólkið kemur aftur þegar það er tilbúið, kannski verður það færra en var á síðustu árum en mér skilst á ferðaþjónustuaðilum að margir gestir hafi fært sínar bókanir til 2021, þannig að við sjáum hvað gerist.“