Samsýning níu íslenskra myndlistarmanna verður opnuð í bænum Hälleforsnäs í Svíþjóð í dag, 19. september, undir yfirskriftinni Islandsfärger, sem útleggst: Litir Íslands.

Listaverkin eru af ýmsum toga: tví- og þrívíð textílverk, bókverk, málverk, vatnslitamyndir, samklippur og pappírslágmyndir og bak við þau er níu manna hópur sem tengist Gilfélaginu á Akureyri, þó ekki búi allir í höfuðstað Norðurlands.

„Opnunin verður með óhefðbundnum hætti vegna COVID-19 en hún verður send út beint á netinu. Þar mun fara fram samtal nokkurra þátttakenda, sænskra listamanna og listnema. Við ætluðum upphaflega að vera viðstödd og vorum búin að öngla saman fyrir farinu, en nærveru okkar var ekki óskað og við skiljum það. Enda mælst til að ekki séu fleiri en 10 saman í sýningarrýminu,“ segir Guðmundur Ármann Sigurjónsson, einn þeirra sem eiga verk á sýningunni. Hinir eru Anna Gunnarsdóttir, Eiríkur Arnar Magnússon, Guðrún H. Bjarnadóttir (Hadda), Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir, Ívar Freyr Kárason, Jónborg Sigurðardóttir (Jonna), Ragnar Hólm Ragnarsson og Sigurður Magnússon.

„Við erum að endurgjalda sýningu sem hópur sænskra listamanna kom með til okkar og var í Deiglunni á Akureyri haustið 2018,“ segir Guðmundur. Sýningin í Hälleforsnäs stendur til 22. nóvember.