Þau eru ófá hlutverkin sem Sigríður Þorvaldsdóttir leikkona hefur túlkað um ævina, meðal annars á sviði Þjóðleikhússins og í sjónvarpi.

„Ég held ég hafi alltaf ætlað að verða leikkona,“ segir hún en kveðst samt líka hafa lært hárgreiðslu, bara til öryggis.

„Mamma var með hárgreiðslustofu fyrir ofan Gamla bíó í Ingólfsstrætinu og ég byrjaði að hjálpa henni þegar ég var tólf ára. Var svo lærlingur hjá henni og fór í Iðnskólann, þar útskrifaðist ég sautján ára,“ rifjar hún upp.

Þetta var árið 1958. Fleira merkilegt gerðist í lífi Sigríðar sama ár, hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins um vorið og var kjörin fegurðardrottning Íslands.

„Ég var líka að leika í sýningum í Þjóðleikhúsinu seinni veturinn í leiklistarnáminu og þurfti að stökkva inn í söngleikinn Kysstu mig, Kata þegar vika var í frumsýningu, var einmitt að leika í Kötu kvöldið sem fegurðarsamkeppnin var. Skaust bara í hléinu úr leikhúsinu út í Tívolí í Vatnsmýrinni, þar sem keppnin var haldin og svo til baka. Eftir leiksýninguna fór ég aftur í Tívolí og frétti að ég væri orðin fegurðardrottning Íslands.“

Fegurðardrottningin í skautbúningi.

Fegurðin og fiskurinn

Margt ánægjulegt rifjast upp smátt og smátt þegar Sigríður byrjar að segja frá. Fegurðardrottningartitillinn fleytti henni vestur um haf, fyrst til New York og þaðan til Kaliforníu að keppa í alheimsfegurðarsamkeppni á Langasandi.

„Það var auðvitað heilmikið ævintýri allt saman, þvílík hátíðarhöld,“ segir hún. „Ég var nokkrar vikur hjá góðum hjónum sem höfðu flutt frá Winnipeg til Kaliforníu, frúin dekraði við mig og keyrði mig um. Ég fór líka milli búða og borga að kynna íslenskan fisk í fallegum umbúðum.“

Sigríður kveðst hafa verið ákveðin í að nota Bandaríkjaferðina til að fara í framhaldsnám í leiklist og hún hafi komist inn í mjög góðan skóla, Estelle Harman Actors Workshop í Hollywood, þar hafi hún verið í tvö ár og tekið þátt í mörgu skemmtilegu.

„Ég fékk foreldra mína og systkini til að flytja út. Fyrst vorum við öll í Kaliforníu og fluttum svo til Texas. Þar vann ég í leikhúsi í Dallas í þrjú ár og lék fjöldann allan af skemmtilegum rullum. Svo sigldum við heim með Gullfossi, þá var ég búin að vera fimm ár úti.“

Kómík og dramatík

Spurð hvort hún hafi fljótt fengið hlutverk hér á Íslandi eftir Bandaríkjadvölina svarar Sigríður:

„Já, um leið og ég kom heim – í Þjóðleikhúsinu. Það var yndislegt, ég vann þar allan minn starfsferil. Var svo heppin að fá að starfa að ástríðu minni allan þennan tíma með frábæru listafólki og takast á við alls konar hlutverk, kómísk og dramatísk.“

Hún kveðst eiga margar uppáhaldspersónur í leikbókmenntunum, Snæfríður Íslandssól sé þar á meðal.

„Það var meiriháttar að fá það hlutverk.“

Sigríður gerir gott úr líðan sinni og heilsu. Áttræðisafmælið er nýliðið.

„Við hittumst ég og stelpurnar mínar og afkomendurnir, barnabörnin eru nú orðin níu. Við fórum út að borða saman og gerðum okkur glaðan dag í takti við sóttvarnalög. Ég á þrjár stelpur, Ingibjörgu, Þórunni og Dísellu, þær eru yndislegar.“