Við erum hér á slóðum Sturlungu og listaverkin að verða til í skálanum sem sýningin verður í,“ segir Jón Adolf Steinólfsson myndlistarmaður, staddur á Kringlumýri í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem hjónin Sigurður Hansen og María Guðmundsdóttir opnuðu Kakalaskála árið 2012. Jón Adolf er einn af fjórtán listamönnum frá níu þjóðlöndum sem hver og einn gerir tvö verk og undirbýr þannig sögusýningu sem verður opnuð gestum í vor. Að sögn hans eru verkin tengd Haugsnesbardaga sem háður var í grenndinni árið 1246 og Sigurður Hansen hefur túlkað með útilistaverki úr stórgrýti.

„Verkin sem nú er verið að gera snúast um aðdraganda og afleiðingar bardagans. Svo sem þegar Þórður kakali kemur heim að loknum Flóabardaga 1244 þar sem faðir hans og bróðir voru vegnir,“ lýsir Jón Adolf. „Allir listamennirnir hafa kynnt sér söguna og skipt með sér verkum, en hafa frjálsar hendur um að túlka hana á sinn hátt, hvort sem er í skúlptúrum úr tré eða málmi, útskurði eða málverki. Allt verður sýnilegt og gestir munu ganga á milli verkanna með hljóðleiðsögn í eyrunum, þar sem sagan verður sögð. Þetta verður magnað og bætir enn á áhrif verksins hans Sigurðar hér á áreyrunum.“

Sigurður Hansen sviðsetti Haugsnesbardaga fyrir nokkrum árum. Fréttablaðið/GVA

Jón Adolf segir listamennina á heimsmælikvarða. „Ég þekki þá marga því ég er búinn að vinna í myndhöggi í Kína, Nepal, Tyrklandi og víðar. Við Sigurður Hansen þekkjumst, ég gerði róðukross fyrir Sturlungafélagið fyrir nokkrum árum sem er hér skammt frá. Sigurður fékk mig með sér í þetta verkefni. Þetta er meiriháttar framtak hjá honum, hann hefur verið með sögustundir hér í skálanum undanfarin ár, enda hverfur maður aftur í aldir í huganum og sér atburðina fyrir sér þegar hann segir frá. Hjónin eru stórhuga, fjármagna þetta að mestu sjálf, borga undir listamennina að utan, hýsa þá og gefa þeim að borða. Þau eru hugsjónafólk.“

Hér er eitt listaverkið á leið á strigann.

Sjálfur er Jón Adolf með verk í vinnslu í Kakalaskála. „Ég vinn oft í grjót en nú sker ég út í tré stóra lágmynd af bardaganum og landslaginu á bak við. Ég er ekki eins langt kominn og ég hefði viljað, enda telst ég listrænn stjórnandi og sé um að allir hafi það sem þeir þurfa. Það er minna mál fyrir mig að klára mitt þegar hinir eru farnir, ef ég á eitthvað eftir. Við erum búin að vera að í eina viku og ætlum að ljúka verkinu 15. apríl.“