Sýningin En hilsen over havet – Kveðja yfir hafið – var tilraun til að takast á við þær nýju aðstæður sem komu upp í kjölfar heimsfaraldursins,“ segir Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri Nordatlantens Brygge og lýsir tildrögunum nánar.

„Þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst hér í Kaupmannahöfn síðasta vor og enginn gat komist milli landa með góðu móti, fékk ég þá hugmynd að biðja listamenn frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi að senda mér listræna kveðju í formi hefðbundins póstkorts. Hugmyndin fékk góðar viðtökur, kortin hafa borist hingað frá því í byrjun júní og eru orðin 75. Þau eru sett upp jafnóðum þannig að sýningin hefur vaxið og breyst en nú fer henni að ljúka.“ Heiðar Kári nefnir þekkta íslenska sendendur, þeirra á meðal Hrein Friðfinnsson, Eggert Pétursson, Rögnu Róbertsdóttur, Helga Þorgils og Brynhildi Þorgeirsdóttur. „Eitt kort er frá Kristjáni Guðmundssyni, dagsett á Hjalteyri 8. 6. 2020,“ bætir hann við.

NAB_R5_0393.jpg

Sýningin Kveðja yfir hafið hefur verið ágætlega sótt, einkum síðsumars, og meðal gesta verið nokkrir Íslendingar, að sögn sýningarstjórans. „Ferðafólkið vantar samt í borgina, rétt eins og á Íslandi,“ segir hann. „Umferð um bryggjuna var minni en undanfarin ár en frá því í ágúst hefur hún verið að glæðast.“

Heiðar Kári hefur sloppið við veiruna sem betur fer, ásamt fjölskyldunni. „Við náðum blessunarlega að komast til Íslands í sumarfrí í júlí, á milli bylgna.“ Hann segir lífið smátt og smátt að komast í eðlilegt horf í Kaupmannahöfn, enn séu þó nokkrar takmarkanir í gildi og búið að framlengja flestar til loka október. „Stofnanir á menningarsviðinu hafa fengið að halda opnu síðan í júní sem er mjög gott. Hins vegar er Nordatlantens Brygge háð samstarfi þvers og kruss yfir Norður-Atlantshafið og við þurftum, því miður, að fresta ýmsum viðburðum og færa til aðra.“

NAB_R5_0424.jpg

En hvað er framundan?

„Nú erum við að undirbúa sýningu á samtímalist frá Færeyjum. Svo munum við sýna stórt verk eftir Hrafnhildi Arnardóttur, Shoplifter, á næsta ári, þeirri sýningu var frestað um ár vegna COVID-19. Það er fyrsta stóra einkasýning Hrafnhildar í Danmörku og mun eflaust vekja mikla athygli.“