„Hugmyndin kom til þegar nokkur listasöfn, gallerí og sýningarstaðir vildu gera eitthvað skemmtilegt saman í sumar, en veturinn hefur náttúrulega verið skrítinn tími,“ segir Sunna Ástþórsdóttir, verkefnastjóri Nýlistasafnsins, sem er meðal sýningarstaða sem bjóða upp á framlengdan opnunartíma síðustu fimmtudagskvöldin í júní, júlí og ágúst. „Mörgum söfnum og sýningarstöðum var lokað tímabundið í faraldrinum, svo okkur fannst upplagt að taka höndum saman og lífga upp á listasumarið.“

Þeir staðir sem taka þátt í fyrsta fimmtudeginum nú á morgun eru Listasafn Reykjavíkur – Kjarvalsstaðir og Hafnarhús, Nýlistasafnið, Kling & Bang, Studio Ólafur Elíasson, i8 gallery, Gallery Port, Hverfisgallerí, Shoplifter Studio, Harbinger, Ásmundarsalur, Samband Íslenskra myndlistarmanna og Listasafn Íslands. Sunna segir að sýningarstaðirnir muni reyna að beina stærri viðburðum sínum á þessi fimmtudagskvöld.

Annað kvöld verður meðal annars boðið upp á listamannaspjall með Ólöfu Bóasdóttur í Harbinger, tvær sýningaropnanir í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, pop-up bar í Hafnarhúsinu og margt fleira.

Enginn aðgangseyrir verður á kvöldin, sem eru í samstarfi við Sumarborgina Reykjavík. Dagskrána í heild má finna á Facebook-síðu viðburðarins: Fimmtudagurinn langi