Fyrsta há­tíð sem haldin er Hamra­borginni í Kópa­vogi til heiðurs hefst á morgun og stendur fram á sunnu­dag. Hún snýst um mynd­list, tón­leika, leik­lestur, bíó og dans svo eitt­hvað sé nefnt.

„Við á­kváðum að kalla há­tíðina Hamra­borg – festi­val. Hún teygir sig um götuna, búðirnar, galleríin, garða og bíla­plön og líka menningar­húsin hinum megin Hafnar­fjarðar­vegar,“ segir lista­konan Ragn­heiður Bjarnar­son. Hún er einn list­rænna stjórn­enda há­tíðarinnar og stofn­enda Mid­punkts, list­rýmis innar­lega í Hamra­borg þar sem um­rædd há­tíð verður sett klukkan 16 á morgun og sýningin Ó­skila­munir opnuð. „Svo er líka sýning í Y, gömlu bensín­stöðinni, og enginn kaupir sér lottómiða, vapevökva eða skart í Hamra­borg þessa dagana án þess að rekast á list,“ lýsir hún. Ragn­heiður er á heima­velli, sér­menntuð í list í al­mennings­rými. „Enda hafa margir auga fyrir list þó þeir gefi sér ekki tíma til að heim­sækja menningar­stofnanir og söfn, eins og það er þó æðis­legt,“ segir hún.

Við sitjum yfir góðu kaffi á neðri hæð Gerðar­safns með Þor­gerði Þór­halls­dóttur, verk­efna­stjóra þar – sem grípur þráðinn. „Einn liður í há­tíðinni er sýning á vídeó­verki eftir ung­menna­ráð Gerðar­safns sem kallar sig Grakkana. Þeir krakkar voru hér í lista­búðum í allt sumar, pældu mikið í sýningunni Hlut­bundin þrá og bjuggu meðal annars til lyga­leið­sögn um hana!“

Þétt dag­skrá

Þor­gerður bendir á að dag­skráin á morgun sé þétt. „Hálf­tíma eftir opnun, eða 16.30, verður af­hjúpað lista­verk í formi gjörnings á Hálsa­torgi sem hét áður Gjáin og klukkan 17 byrja djass­tón­leikar í Salnum með Önnu Grétu, Sigga Flosa og Johan Teng­holm. Klukkan 18 verður svo Styrmir Örn Guð­munds­son, gjörninga- og sögu­maður, dansari, söngvari og mynd­skreytir, með leið­sögn um verk sín á sam­sýningunni Hlut­bundin þrá hér í Gerðar­safni. Sýningunni lýkur um helgina en klukkan 17 á föstu­dag er boðið þar upp á teikni­s­miðju fyrir full­orðna. Lista­konan Guð­laug Mía Ey­þórs­dóttir sýnir eigið verk og fær fólk til að upp­götva ný sjónar­horn og setja þau á blað. Þar skapast örugg­lega góð „eftir vinnu-stemning“!

Öldur­húsið Catalina hýsir upp­lestur úr verkum Tyrfings Tyrfings­sonar leik­skálds á föstu­dags­kvöld og tón­leika á laugar­dags­kvöld, auk loka­hófs og gleði, að sögn Ragn­heiðar. „Þar ætlum við að dansa smá og jafn­vel færa okkur út á götu!“ „En fyrir tón­leikana ætlar Kamilla Einars­dóttir rit­höfundur í göngu­túr frá bóka­safninu,“ minnir Þor­gerður á, „og sýna okkur alla litlu staðina sem hún dýrkar í Hamra­borginni – hún vonar að það verði ekki sól!“ „Það eru merki­lega margir til­búnir að skapa óð til götu sem alltaf er í súld,“ segir Ragn­heiður. „Já, til að glæða lista­lífið!“ bendir Þor­gerður á.