Sjókonur og snillingar verður frumsýnt á Forntónlistarhátíðinni Kona í Reykjanesbæ um helgina á vegum ReykjavíkBarokk. Hátíðin er nú haldin í annað skipti en þar er lagt upp með að vekja athygli á verkum kventónskálda í gegnum aldirnar sem hafa ekki fengið verðskuldaða athygli.

Sjókonur og snillingar byggir á störfum ólíkra kvenna frá 18. öld, annars vegar skáldkonunnar Bjargar Einarsdóttur eða „Látra-Bjargar“ og hins vegar ítalska tónskáldsins Maddalenu Lombardini Sirmen.

„Þarna erum við að stefna saman tveimur listakonum úr fortíðinni, annarri með rætur í ítölsku barokki og hin í íslenskum kveðskap,“ segir Þórey Sigþórsdóttir, leikstjóri sýningarinnar. „Þetta eru samtímakonur þótt ólíkar séu en eiga það sameiginlegt að hafa báðar verið skildar eftir af foreldrum sínum.“

Látra-Björg var níu ára skilin eftir af foreldrum sínum að Látrum þaðan sem hún dregur viðurnefni sitt. Hún var afkastamikil kvæðakona og þótti svo mögnuð að sumir töldu hana göldrótta. Látra-Björg lést í móðuharðindunum, en ein kveikjan að baki sýningunni er bréf sem talið er að Látra-Björg hafi skrifað.

„Á Látrum fannst bréf sem hún skrifaði líklega sjálf en oft var kveðskapurinn bara í munnmælum geymdur,“ segir Þórey.

Maddalena Laura Lombardini var fædd í Feneyjum árið 1745 en var sjö ára gömul send í klaustur til að læra tónlist. Hún varð maestro 21 árs gömul og tók upp eftirnafnið Sirmen þegar hún gifti sig 1767. Maddalena náði miklum frama sem tónskáld á Ítalíu á mjög karllægum tíma og varð síðar óperusöngkona.

„Það er svo magnað að vita af þessum samtímakonum sem bjuggu við svo ólíkan menningarheim,“ segir Þórey.

Rafslegið barokk

Sýningin dregur innblástur sinn úr ólíkum áttum en efniviður hennar er að hluta unninn upp úr kafla úr bók skáldkonunnar Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur sem skrifaður er eins og dagbók Látra-Bjargar. Ólíkir heimarnir eru síðan tengdir saman með raftónlist sellóleikarans Kristínar Lárusdóttur sem skapaði hljóðheiminn. „Það er merkilegt hversu vel það talar saman, barokkið og rafið,“ segir Þórey. „Sýningin er í raun samsköpun hópsins sem hefur unnið ötullega að því að finna verk kvenna sem hafa týnst í tímans rás.“

Verkið hefur verið mótað sem leiksýning í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem um áttatíu börn hafa lært að kveða vísur eftir Látra-Björgu. Börnin taka þátt í sýningunni auk þess sem fjórar kvæðakonur úr Kvæðamannafélaginu Iðunni koma einnig fram. Þar má nefna tónskáldið og kvæðakonuna Báru Grímsdóttur sem jafnframt hefur útsett íslenska þjóðlagið við ljóð Látra-Bjargar Fagurt er í fjörðum, sérstaklega fyrir sýninguna.

„Við erum svo að þróa sýninguna áfram og vonandi kemst hún í leikhús og víðar út á land,“ segir Þórey. „Það er svo mikilvægt að viðhalda tengingu við þennan dýrmæta menningararf sem við eigum í kveðskapnum, halda honum lifandi og koma áfram til næstu kynslóða.“