Á þessum degi fyrir tuttugu árum var Listaháskóli Íslands formlega stofnaður. Það var í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar sem stjórnarmenn skólans hittust og undirrituðu skipulagsskrá þessara nýju listastofnunar og var það svo þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, sem staðfesti hana. Við tækifærið sagði Björn: „Þar með er þessum áfanga náð. Allt vinnst þetta með tímanum.“

Samkvæmt skipulagsskránni er Listaháskólinn „háskólastofnun sem sinnir æðri menntun á sviði listgreina, sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna á háskólastigi. Listaháskóli Íslands skal jafnframt vinna að eflingu listmennta með þjóðinni og miðla fræðslu um listir og menningu til almennings.“

Kennsla hófst um ári eftir þessa formlegu stofnun skólans, eða að hausti til árið 1999. Fyrst um sinn var þar aðeins starfrækt myndlistardeild en í dag eru deildirnar fimm: myndlistardeild, leiklistardeild, hönnunar- og arkitektúrdeild, listkennsludeild og tónlistardeild. Þessi uppbygging var einkar ör en árið 2000 hófst kennsla í leiklist og árið eftir í tónlist. Hönnunardeildin kom til sögunnar árið 2001 og árið 2002 voru það arkitektúr, vöruhönnun og fatahönnun sem bættust við.

Í fyrstu var húsnæðinu að Laugarnesvegi 91 ætlað að hýsa skólann en í dag er hann starfræktur í samtals fjórum byggingum, auk Laugarnessins er hann til húsa í Þverholti og við Sölvhólsgötu.

Núverandi rektor skólans er Fríða Björk Ingvarsdóttir og hefur hún gegnt því starfi síðan 2013. Hún var fyrr í mánuðinum endurráðin sem rektor skólans.

Á þessum tuttugu árum hefur skólinn útskrifað ógrynni listafólks í fremstu röð en þó hefur reksturinn ekki gengið hnökralaust fyrir sig – á síðustu árum hafa nemendur til að mynda verið óánægðir með húsnæði skólans og þá sérstaklega við Sölvhólsgötu en í fyrra sagði formaður nemendafélags sviðslistanema húsnæðið vera „heilsuspillandi [og] mygla nýtur sín betur en nemendur“. Í góðærinu voru uppi plön um að reisa skólanum nýtt húsnæði við Laugaveg en enn hefur sá draumur (sumra) ekki ræst.