Síðasta sýningarhelgi í Lýðræðisbúllunni – áður Ekkisens – að Bergstaðastræti 25b, er að renna upp. Þar er listsýningin Milli tveggja heima, samsýning sem myndlistar- og vinkonurnar Karen Björg og Freyja Eilíf standa að. Sérlegt áhugasvið þeirra er hið óræða, samspil lita og grafísk nálgun á myndefni.

Hér er landslagið í forgrunni, þó ekki séu listakonurnar með ákveðna staðsetningu í huga, heldur huglægt ástand ferðalags. Freyja Eilíf sýnir útskornar veggmyndir og vatnslitamyndir á pappír. Karen Björg er með málverk unnin með akríl á striga þar sem einn litur leiðir af sér hinn næsta. ■