Sýningin List-míla verður formlega opnuð í dag klukkan 17 í Odda og stendur fram í október. Kristján Steingrímur Jónsson, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, segir hana setta upp í tilefni af 40 ára afmæli safnsins og dreifast um Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorg, Odda og Veröld og tengiganga milli þeirra. Sjálfur er hann sýningarstjóri ásamt Æsu Sigurjónsdóttur, listfræðingi og dósent.

„Markmiðið er að gefa nemendum skólans, starfsmönnum og ekki síst öllum almenningi kost á að kynnast safneigninni,“ segir Kristján og ber svo upp spurningu: „En veistu af hverju hún heitir List-míla? Það er vegna þess að sýningin er í öllum þessum fimm byggingum og göngum á milli þeirra og gestir þurfa að ganga hátt í eina mílu til að geta séð öll verkin sem eru um 170. Það ætti að takast á um það bil klukkutíma, en fer auðvitað eftir því hversu lengi fólk staldrar við hvert og eitt verk. List-míla er í leiðinni heilsubótarsýning. Svo fylgir með í pakkanum að gestir geta kynnst háskólaumhverfinu vel.“

Kristján Steingrímur er starfandi listamaður en kveðst hafa verið rúmlega eitt og hálft ár í hlutastarfi sem forstöðumaður Listasafns HÍ. Það segir hann skemmtilegt starf. „Ég tók við af Auði Övu Ólafsdóttur, rithöfundi og listfræðingi, sem hafði gegnt því áður. Heildareign safnsins er hátt í 1.500 verk og um 300 þeirra eru í byggingum háskólans alltaf, þannig hefur það verið áratugum saman. Mitt hefðbundna starf er að sjá til þess að endurnýja upphengi í byggingum, halda utan um skráningu safneignarinnar og passa upp á forvörslu og öryggi. Það þarf reglulega að yfirfara verk og fá sérfræðinga til að gera við þau. Innrömmun þarf líka að vera í lagi. Svo fylgir starfinu upplýsingagjöf um verk og lán til annarra safna og sýninga. Það er dálítið um að sótt sé í listaverkaeign Háskólans sem segir okkur bara að safnið er áhugavert.“

Alltaf bætist við safnið gegnum árin, að sögn Kristjáns. „Við vorum að taka við listaverkagjöf í síðustu viku og svo kaupir safnið alltaf lítillega inn og bætir þannig smátt og smátt við eignina,“ lýsir hann og segir reynt að kaupa sýnishorn af samtímalist úr nútímanum í bland við eldri verk.“