Lionshreyfingin á Íslandi fagnaði sjötíu ára afmæli síðastliðinn laugardag. Í tilefni þess var blómsveigur lagður á leiði Magnúsar Kjaran kaupmanns, sem stofnaði fyrsta klúbb samtakanna hér á landi, Lionsklúbb Reykjavíkur. Guðrún Björt Yngvadóttir, fyrrverandi alþjóðaforseti hreyfingarinnar, og Þorkell Cýrusson fjölumdæmisstjóri hafa lengi verið meðlimir í samtökunum sem þau segja að skipi veigamikinn sess í þeirra lífi.

„Eftir að Lionsklúbbur Reykjavíkur var stofnaður fjölgaði klúbbunum og Lionshreyfingin dafnaði hér á landi svo fljótlega þurfti að skipta landinu í tvö umdæmi,“ segir Guðrún Björt í upphafi dálítillar sögustundar um Lions á Íslandi. „Á þeim tíma voru meðlimir aðeins karlmenn, samkvæmt lögum samtakanna, en það var svo árið 1987 að konum var leyfð innganga í hreyfinguna.“

Þorkell segir útbreiðslu Lionshreyfingarinnar hér á landi hafa að stórum hluta verið atorkusemi Magnúsar Kjaran að þakka, hann hafi sent erindreka út um allt land með það að markmiði að stofna klúbba. „Í dag eru klúbbarnir um 80 talsins og í þeim eru um tvö þúsund manns,“ upplýsir hann. „Já, þegar best lét var um eitt prósent Íslendinga Lionsfélagar en sú er ekki lengur raunin því félögum hefur ekki fjölgað í takt við íbúafjölgun í landinu,“ útskýrir Guðrún. Hún segir hreyfinguna hér á landi skera sig frá starfi samtakanna í öðrum löndum. „Við höfum lagt sérstaklega mikla áherslu á umhverfismál og erum stolt af því.“

Alþjóðasamtök Lions, sem og hreyfingin á Íslandi, hafa tekið þátt í að veita aðstoð eftir náttúruhamfarir, eins og þegar spítalinn í Vestmannaeyjum fór undir ösku í eldgosinu 1973,“ lýsir Guðrún. „Lionsklúbburinn þar endurbyggði spítalann og keypti allt nýtt inn í hann, allt frá teskeiðum upp í skurðstofutæki.“

Þorkell man ennþá eftir því þegar hann fékk fyrst boð um að mæta í Lionsklúbb Nesþinga á Hellissandi árið 1990. „Ég snerti eiginlega ekki jörðina í nokkra daga á eftir, mér þótti þetta svo merkilegt,“ segir hann. „Ég hélt fyrst að þetta væri kannski klúbbur fyrir eldri og heldri menn og ekki vettvangur fyrir ungan mann eins og mig, en ég var fljótur að átta mig á út á hvað starfið gekk og það heillaði mig mjög.“

Guðrún gekk aðeins síðar í hreyfinguna, árið 1992, en áður en konur fengu inngöngu í samtökin hafði hún verið manninum sínum innan handar í hans klúbbastarfi. „Klúbburinn hans virkjaði mikið fjölskyldur meðlimanna í alls konar verkefni svo ég þekkti til starfsins,“ segir hún. „Þegar mér var svo boðið að ganga í klúbbinn árið 1987 hafði ég ekki tíma til þess en gekk í hreyfinguna nokkrum árum síðar, enda var ég mjög heilluð af starfinu á heimsvísu.“

Þorkell segir framtíð Lionssamtakanna á Íslandi bjarta. „Ég tel að hreyfingin höndli vel aðlögun að breyttum tímum og held að hún komi enn sterkari en áður út úr Covid-ástandinu sem nú ríkir.“