Linda Antonsdóttir

Fædd 11. desember 1973. Látin 10. febrúar 2018.

Lífið“ er núna … og lífið „gerist“ hvernig svo sem maður reynir að haga tilveru sinni. Eftir því sem lífið „gerist“ oftar án þess að maður fái nokkru ráðið, skynjar maður betur hversu dýrmætt hvert augnablik er. 

Margir hafa skrifað um sorgina og missinn og eflaust flestir betur en við. Uppsprettan er þó sú sama, tilfinningar sem líkt og náttúruhamfarir umbylta tilveru manns og sársauki sem er svo sár að hann virðist óbærilegur. En þannig á það kannski að vera.. sá sem kemst hjá því að upplifa slíkan missi hefur líklega ekki þegið, ekki gefið, ekki notið … ekki lifað. 

Með elsku Lindu okkar lifðum við, gáfum, nutum og þáðum. Við upplifðum lífið saman, eins og það var okkur best og líka þær stundir sem það virtist okkur verst. Við þrjár vorum eitt, „Skytturnar“, „Stuðningsfélag foreldra óþolandi unglinga“ eða „Haltur leiðir blindan“, allt eftir því hvaða verkefnum lífið hafði úthlutað okkur þá stundina. 

Oft heyrir maður sagt að allir séu góðir í einhverju og fólk þurfi að finna hæfileika sína. Linda var ekki ein af þeim sem þurfti að leita ... Linda var ekki bara góð í einhverju, hún var góð í öllu, framúrskarandi góð í öllu. Hún var snillingur. 

Kannski notaði Linda ekki alltaf alla þessa hæfileika, því eins og hjá svo mörgum öðrum snillingum var snilligáfan ekki alveg ókeypis. Það var nefnilega eitt sem Linda okkar náði aldrei fullum tökum á og það var hinn gullni meðalvegur. Linda gerði allt sem hún tók sér fyrir hendur 120% og ef hún gat ekki tekið hlutina alla leið og helst talsvert lengra, sleppti hún þeim frekar. Líklega mætti alveg segja að Linda hafi lifað lífinu í „öðru veldi“, bæði það sem hún gerði.. og það sem hún gerði ekki. Eitt var þó alltaf öruggt … ef einhver af fólkinu hennar þurfti á henni að halda, var alveg sama hvað þurfti til og hvar Linda var stödd, hún var til staðar fyrir sína … í öðru veldi. 

Linda fékk líka ríflegan skerf af bæði láni og óláni í lífinu. Sína mestu gæfu sagði hún alltaf vera að eiga bestu foreldra í heimi  og svo seinna að eignast synina tvo. Anton og Sólveig, foreldrar hennar, studdu við bakið á henni hvað svo sem hún tók sér fyrir hendur og Linda var endalaust þakklát fyrir að eiga þau að, sem og allar gæðastundirnar sem þau áttu saman. Hvað synina varðar, þá átti Linda ekki að geta eignast börn, eða eins og læknirinn hennar orðaði það fyrir 25 árum: „Linda mín, það eru ámóta líkur á því að þú eignist barn og að þú vinnir fyrsta vinning í lottó.“ Linda vann sem sagt tvisvar í lottóinu og það enga smá vinninga.  

Við þekkjum ekkert foreldri sem tók jafn mikinn þátt í lífi barnanna sinna og Linda gerði. Hún setti sig inn í öll áhugamál þeirra en lagði líka mikið á sig til að kynna fyrir þeim það sem var henni mikilvægt. Til dæmis um þetta þá spilaði hún tölvuleikina þeirra, hún kynnti sér og hlustaði á tónlistina sem þeim líkaði, vinir strákanna voru engu minni vinir Lindu og það var ekkert sem hún lagði ekki á sig til að þeir gætu sinnt áhugamálum sínum. 

Hvað fræðslu varðar held ég að Linda hafi verið jafn ákveðin í að drengirnir fengju staðgóða þekkingu á bókmenntum og tónlist og hún var í að leiðrétta málfræðivillur okkar vinkvennanna … sem sagt óþreytandi. Hún var farin að lesa heimsbókmenntirnar fyrir þá áður en þeir byrjuðu í grunnskóla og þá jafnt á ensku sem íslensku og þar var Hobbitinn í mestu uppáhaldi. Tónlistin var líka stór partur af Lindu og þeim hæfileikum og áhuga gaf hún strákunum sínum einnig mikinn hlut í. Hún spilaði sjálf á píanó og gítar en okkur vinkonunum þótti vænst um einstöku söngröddina hennar. 

Minningarnar um Lindu eru svo margar enda höfum við þrjár fylgst að í 22 ár. Faðmlögin koma fyrst upp í hugann … enginn hefur, eða mun nokkurn tíma gefa betri faðmlög en Linda. Allir kaffihúsahittingarnir … Linda mætti alltaf korter í þó svo hún vissi vel að værum alltaf a.m.k. hálftíma of seinar … henni var alveg sama, hún kom bara með bók. Linda með okkur úti á lífinu … nánast alltaf að keyra en samt alltaf til í  allt með okkur trippunum. Ferðalög, þar sem Linda fræddi okkur vitleysingana af einstakri þolinmæði um örnefni og sögu hverrar þúfu og að okkar mati, mis markverðra staða.  Ekki að ræða það að vera komnar á söguslóðir og keyra bara framhjá. Linda að leiðrétta ófáar málfræðivillur undirritaðra, gafst aldrei upp. Linda að tala um strákana sína … endalaust. 

Allir „aðalfundirnir“ okkar þar sem vandamál og sigrar hvunndagsins voru krufðir til mergjar milli lagna í Scrabble … engin þörf á að fletta upp í  orðabók ef orðin þóttu vafasöm … við höfðum Lindu. Allar veislurnar þar sem Linda toppaði síðustu tertu í hvert einasta skipti, var oft margar vikur að undirbúa skreytingarnar. Handavinnan sem var alltaf, alltaf tekin á „næsta level“. Linda var líka tækniséní.. hún var farin að setja upp eða laga tölvurnar okkar á meðan við hinar héldum að við ættum að mæla stærð minniskubba með reglustiku. Svo voru það naggrísirnir … einhvern veginn gerðist það að Linda fór á lista yfir fósturheimili Dýrahjálpar fyrir nagdýr. Það var líka tekið alla leið enda mátti Linda ekkert aumt sjá … og hvað munaði svo sem um einn naggrís enn. Á tímabili fóstraði Linda 7 naggrísi, 2 kanínur og ef við munum rétt, hamsturinn Hermione. Sem betur fer, stoppuðu dýrin þó flest stutt við því eftir nokkrar vikur í dekri á Hótel Lindu, voru þau orðin feit og pattaraleg og tilbúin til að flytja á framtíðarheimilin. Síðast en ekki síst eru það Halloween og jólin, Linda átti afmæli í desember og hún var svo mikið jólabarn að hún hlakkaði ekki bara til jólanna heldur hlakkaði hún til að hlakka til jólanna. Við stríddum henni stundum á því að hún væri með „O.C.D.“ eða Obsessive-Christmas-Disorder. Jólin hennar byrjuðu í september og það fengu næstum allir á Íslandi jólagjafir frá Lindu. Þetta lýsir henni svo vel því Linda kunni sannarlega að njóta og gefa og þiggja og lifa.

Í dag kveðjum við Lindu okkar í síðasta sinn, lífið heldur áfram að „gerast“ og við vinkonurnar og fjölskylda hennar þurfum að takast á við það án Lindu. 

Elsku Anton og Sólveig, Andri Már og Ragna og Ævar Þór, minningarnar eru svo dýrmætar og missirinn svo mikill. Stundirnar með Lindu gerðu okkur ríkari og minningarnar um þær stundir munu fylgja okkur til leiðarloka. 

Við eigum eftir að sakna hennar á hverjum degi um ókomin ár.. það mun enginn, aldrei, aldrei aldrei geta fyllt upp í það rými sem Linda átti í tilveru okkar, því Linda var einfaldlega einstök.

Lilja Emilía Jónsdóttir og Valdís Halldórsdóttir

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing

Fleiri minningargreinar

Ástþór Ragnarsson

Séra Sigurður Helgi Guð­munds­son

Steingerður Jónsdóttir

Gunnar Guðlaugsson

Páll Sigurður Jónsson

Kristín Agnes Samsonardóttir (Ninna)

Auglýsing