Hér byrjaði ég að vinna þegar Kolaportið flutti starfsemi sína úr bílageymslunni undir Arnarhóli hingað í Tryggvagötuna í júní 1994,“ segir Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins. „Byrjaði bara á kústinum, að sópa og henda rusli. Á morgnana hjálpaði ég fólki að koma vörum að básunum sínum, redda borðum og fataslám og öllu sem tilheyrði. Þetta eru störf sem þarf að sinna enn í dag. Svo tók ég við rekstrinum 2003.“

Ég er í heimsókn í Kolaportinu í tilefni þrítugsafmælis þess á árinu, en er á virkum degi og þá er þar engin sölustarfsemi. En þegar helgin brestur á færist fjör yfir staðinn, eftir því sem Gunnar lýsir. „Þetta er líflegur markaður og síbreytilegur. Hann tekur breytingum eftir samfélaginu. Með fjölgun ferðamanna hefur þeim aðilum fjölgað sem selja vörur til ferðamanna. Svona markaðir eru vinsælir alls staðar í heiminum, oft byrja ferðamenn á að heimsækja þá þegar þeir koma til nýrra staða. Þar fá þeir mannlífið beint í æð. Þannig er það hér.“

En eru Íslendingar jafn tryggir viðskiptavinir og þeir voru?

„Já, hingað kemur margt fjölskyldufólk sem sækir í miðbæinn um helgar, gefur öndunum, fer á kaffihús, kíkir í búðir og kemur við í Kolaportinu. Hingað kemur fólk líka til að hitta annað fólk, þetta er eins og félagsmiðstöð. Annaðhvort hittist það í kaffiportinu hér eða á röltinu milli bása.“

Íslenska lopapeysan á sína aðdáendur í Kolaportinu vísa. Fréttablaðið/Andri Marinó

Kaffihornið hefur færst út að glugganum sem snýr að Hörpunni. Þar sem það var áður er bás með vörum frá Asíu og Afríku. Gunnar segir markaðinn með íslensku matvælin vera þar sem hann hefur alltaf verið, með harðfisk í úrvali, rúgbrauð, flatkökur, kleinur og fleira þjóðlegt. Íslenska sælgætið á líka enn sinn sess í portinu. „Sælgætið er vinsælt, ekki bara meðal Íslendinga heldur eru ferðamenn voða hrifnir af því,“ upplýsir Gunnar.

Eins og áður segir Gunnar fólk koma með varning í Kolaportið eftir tiltekt í bílskúrum og fataskápum og það gæði staðinn lífi. „Það skapast oft mikil stemning kringum það fólk sem er hér bara einn dag eða eina helgi. Kúnnarnir eru spenntir að sjá hvað það er að taka upp hverju sinni og oft fjör í kringum það.“

Talsvert af fatnaði hangir uppi og ég spyr Gunnar hvort hann sé í eigu Kolaportsins.

„Nei, Kolaportið rekur enga sölubása. Við erum bara að leigja. Ef við værum sjálf í slíkum rekstri værum við komin í samkeppni við okkar viðskiptavini. Það gengur ekki. Einstaklingar eiga þetta og fá að geyma það. Fyrst þurftu allir að taka allt saman á sunnudögum því þá var verið að reyna að hafa aðra starfsemi í húsinu á virkum dögum. Það var gríðarleg vinna og við hættum því. Þá er hægt að hafa meiri og betri innréttingar.“

Nú hefur bílastæðunum fækkað í kring um Kolaportið, er það ekki bagalegt?

„Bílastæðin hafa breyst, þau eru ekki sýnileg ofan jarðar eins og þau voru en það er nóg af stæðum í bílastæðahúsum hér í kring, undir Arnarhólnum, þar sem Kolaportið hóf starfsemi sína, í Ráðhúsinu og á Vesturgötunni. Svo er nýbúið að opna bílastæði undir Hafnartorgi og þeim á eftir að fjölga.“

Þær eru ófáar bækurnar sem hafa ratað í Kolaportið og skipt um eigendur. Fréttablaðið/Andri Marinó

Spurður hvort grundvöllur sé fyrir að hafa Kolaportið opið á virkum dögum líka þar sem straumur ferðamanna er síst minni þá en um helgar svarar Gunnar: „Það er eitthvað sem væri hægt að skoða þegar uppbyggingin hér í kring verður komin lengra en hún er. En flest það fólk sem er með sölubása í dag er bara í vinnu virka daga. Það þyrfti þá að kaupa sér vinnuafl.“

Gunnar segir framkvæmdirnar í miðbænum hafa haft slæm áhrif á Kolaportið. „Það er búið að vera grindverk í kringum húsið í þrjú ár og auðvitað hefur það sitt að segja og líka færri sýnileg bílastæði. Svo þetta rask sem fylgir þeim, það er stöðugt að fjúka rusl til okkar, ryk og sandur en við teljum að miðbærinn verði betri eftir framkvæmdirnar en fyrir og nú sér fyrir endann á þeim.“