„Þetta byggir svolítið á þeirri hugmyndafræði að allir geti verið vísindamenn,“ segir Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðsins, sem stendur ásamt Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og Reykjavíkurborg að viðburðinum Lífveruleit í Laugardalnum í júlímánuði.

Hjörtur segir leitina miða við þá fjölbreyttu íbúa Laugardalsins sem séu ekki með lögheimili í Húsdýragarðinum, en þar má einnig finna þrestina í trjánum, ánamaðkana í moldinni, hunangsflugurnar sem suða í blómabeðunum og fíflana sem vaxa upp úr stéttinni, og svo framvegis.

„Það er meira verið að skoða mosann, illgresið, fuglana og skordýrin og í raun og veru alla þá náttúru sem er að finna í borgarumhverfinu,“ segir hann. „Við viljum opna augu fólks fyrir því fjölbreytta lífi sem leynist í nærumhverfi okkar.“

Til að taka þátt í lífveruleitinni má nálgast fróðleiksspjöld, annaðhvort í afgreiðslu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins eða í anddyri garðskálans í Grasagarðinum. Á spjöldunum eru nokkur einföld verkefni þar sem þátttakendur eru hvattir til að leita að ákveðnum gerðum lífvera og velta fyrir sér nokkrum áhugaverðum spurningum. Verkefnin henta fólki á öllum aldri.

Er ekki orðið langt síðan þú heimsóttir járnsmiðina?
Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðsins.