Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og Loftslagsleiðtoginn standa fyrir hádegisfundi á morgun, miðvikudag, þar sem loftslagskvíði verður ræddur og hvernig hægt er að lifa með honum. Þar verða áhrif loftslagskvíða tekin fyrir í erindum og opnum umræðum.

„Við komum að þessu verkefni, Loftslagsleiðtoganum, sem fékk styrk úr Loftslagssjóði 2021,“ segir Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. „Loftslagsleiðtoginn miðar að því að vald­efla ungt fólk til að takast á við loftslagsmálin í bland við útivist og leiðtogaþjálfun.“

Umræðuefni fundarins segir Hafdís Hanna tilkomið vegna þess hve mikið loftslagskvíði herjar á ungt fólk í dag.

Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun.
Mynd/ Helen Maybanks

„Það eru auðvitað þau sem munu erfa jörðina,“ segir hún. „Við ákváðum þemað með því að spyrja þau sem útskrifuðust hjá okkur úr Loftslagsleiðtoganum hvað ungt fólk vildi helst tala um og þetta er það sem kom upp.“

Getur verið valdeflandi

Erindi á fundinum á miðvikudag flytja þau Sverrir Nordal rithöfundur og Arnhildur Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarmaður á RÚV, sem hafa bæði fjallað um loftslagskvíða í sínum verkum. Þá verða einnig fjölbreyttar umræður, meðal annars með aðkomu frá sálfræðingi hjá sálfræðiþjónustu Háskóla Íslands og frá háskólanema sem tók þátt í Loftslagsleiðtoganum.

Hafdís Hanna segist ekki alveg viss um hvenær hugtakið loftslagskvíði dúkkaði fyrst upp en segir það orðið statt og stöðugt meira áberandi á allra síðustu árum.

„Við erum ekki síst að taka þetta fyrir svo fólk geti fundið leiðir til að takast á við loftslagskvíðann,“ útskýrir hún. „Hann er raunverulegur og eitthvað sem ungt fólk, og auðvitað eldra fólk líka, finnur fyrir í sífellt meiri mæli.“

Hvað getum við gert til að takast á við kvíðann?

„Það er til dæmis hægt að vera virk í umræðunni um loftslagsmál eða nota list til að tjá sig,“ svarar Hafdís Hanna. „Það er hægt að valdefla sjálfan sig til að takast á við þetta. Ég held að það sé aldrei gott að sópa loftslagskvíðanum bara til hliðar.“

Hafdís Hanna bætir að lokum við að þótt kvíðinn geti haft hamlandi áhrif þá megi líka nýta hann sem afl til breytinga.

„Hann getur gefið okkur kraft til þess að halda áfram að finna lausnir á þessari miklu áskorun sem við jarðarbúar stöndum frammi fyrir. Hvernig getum við notað þetta afl til að okkur líði betur? Við viljum endilega fá umræður um þetta í salnum svo við getum heyrt hvernig fólki líður með þetta allt saman og lært hvert af öðru.“

Fundurinn fer fram í Odda, stofu 101, í Háskóla Íslands milli klukkan 12 og 13 á morgun og er öllum opinn.