Hluti af markmiðum hátíðarinnar í gegnum tíðina hefur verið að gefa von og bjartsýni og leyfa sköpunargleðinni að lifa,“ segir Birta Björnsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar Listar án landamæra, þar sem lögð er áhersla á list fatlaðs fólks. „Því ákváðum við að halda okkar striki eins og við höfum gert árlega frá 2003, þegar hátíðin var stofnuð.“ Hún kveðst treysta á að allir hafi þjálfað sig svo vel í rafrænum samskiptum á árinu að þeir geti notið þeirra sýninga sem ekki er hægt að heimsækja vegna lokana og fjöldatakmarkana. Þannig nái listin út fyrir alla sýningarstaði og landamæri.

Hátíðin verður sett formlega í dag, 27. október, klukkan 15.30 í Ráðhúsi Reykjavíkur, af Degi B Eggertssyni borgarstjóra. Þar verður stutt dagskrá sem streymt verður á fésbókarsíðu hátíðarinnar, lofar Birta. Helga Matthildur Viðarsdóttir er listamaður hátíðarinnar í ár. Fagráð valdi hana úr sextán manna hópi sem tilnefningu fékk. Helga Matthildur verður heiðruð við setningu hátíðarinnar en einkasýning hennar er í Listasalnum í Mosfellsbæ. Þar eru hvorki meira né minna en 77 verk eftir þessa listakonu sem er að stíga sín fyrstu skref í sýningarhaldi, að sögn Birtu.

Helga Matthildur er iðin. Hún sýnir sjötíu og sjö verk í Listasal Mosfellsbæjar.

„Einkasýning Brands Bjarnasonar Karlssonar verður opnuð í Ráðhúsinu í dag,“ segir Birta. „Brandur málar með munninum og er fulltrúi Íslands í alþjóðlegum samtökum munnmálara, sem í eru um 800 listamenn um allan heim. Hann hefur sýnt áður í Ráðhúsinu en nú er hann með glæný verk og sýning hans verður á opnunartíma Ráðhússins til 22. nóvember.“

Birta segir töluverða áherslu lagða á myndlist á þessari hátíð. „Myndlistin er sú grein sem fatlaðir hafa helst náð að sinna á árinu, þegar lítið hefur verið um hópastarf, eins og í sviðslist og tónlist,“ bendir hún á.

Sýningarnar eru á tíu stöðum sem eru þekktir fyrir að halda myndlist á lofti. Allir á Suðvesturlandi í ár, í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi og í Hveragerði. „En erum svo heppin að geta sýnt og miðlað listsköpun nokkurra listamanna sem búa úti á landi,“ tekur Birta fram. Hún segir sýningartíma fara eftir því hvenær staðirnir eru opnir. „Margar sýningar standa bara út þessa viku en við ætlum að reyna að miðla þeim með vídeóum. Við notum fésbókarsíðu hátíðarinnar sem aðalmiðil og svo heimasíðuna listin.is til að nálgast allar upplýsingar, myndir og hlekki.“

Eitt af verkum Helgu Matthildar á sýningunni í Listasal Mosfellsbæjar. myndir/aðsendar