Eflaust hefur það vakið óvænta ánægju margra að finna nýtt tölublað Heima er bezt við bréfalúguna í vikunni því tímaritið hafði nánast kvatt áskrifendur sína í júníheftinu. Því var ástæða til að heyra í nýjum ritstjóra, Sigurjóni M. Egilssyni, sem flestir landsmenn kannast við úr fjölmiðlum.

Hvað kom til að þú endurlífgaðir Heima er bezt, Sigurjón? „Fyrir þó nokkru var ég að vafra um á fasteignavef og sá fyrirtæki auglýst til sölu. Þegar betur var að gáð var um tímaritsútgáfu að ræða – Heima er bezt. Þá rifjaðist upp að fyrir 20-30 árum var ég svolítið að vinna fyrir Björn Eiríksson í Skjaldborg sem átti það blað. Ég gantaðist stundum með það að þegar ég yrði gamall ætlaði ég að kaupa það af honum. Hann er nú látinn, blessaður, en ég setti mig í samband við seljandann núna, Guðjón Baldvinsson, sem er búinn að stýra Heima er bezt í áratugi með sóma. Það tók bara tíma að ganga frá kaupunum.“

Sigurjón er nýlega fluttur í Njarðvíkurnar og kveðst heimavinnandi. „Ég er með vefmiðilinn midjan.is sem er næstum fullt starf. En ákvað að kaupa Heima er bezt til að fylla í dagskrána hjá mér og nú var það ekki í neinu gríni því þegar maður eldist eykst áhuginn á þjóðlegum fróðleik. Fyrsta blaðið mitt er sem sagt nýkomið út og í þessum töluðu orðum er ég að ganga frá lokaefninu í næsta blað sem fer í prentun eftir helgi,“ lýsir ritstjórinn.

Nýja blaðið er efnismikið svo áskrifendur ættu að hafa nóg að lesa í bili, bendi ég á. „Já, en það kom skarð í útgáfuna og til að vinna það upp gef ég út þrjú áttatíu síðna blöð til áramóta, í október, nóvember og desember,“ útskýrir Sigurjón. „Svo eftir áramót förum við í eðlilegt far. Þá verð ég búinn að brúa bilið.“

Sigurjón kveðst skrifa meirihluta efnisins sjálfur til að byrja með. „Ég fer ofan í netið á morgnana og kem upp úr á kvöldin. Les og skrifa alveg út í eitt. Blaðamennska er nú ekki leiðinleg vinna,“ bendir hann á og getur þess að í næsta blaði verði stór grein um ævi og feril Þórólfs Beck knattspyrnumanns. „Þórólfur var stórstjarna sem varð að hætta fyrr en hann ætlaði. Það er merkileg saga.“

Heima er bezt mun svo hafa fasta penna eins og í tíð fyrri ritstjóra, að sögn Sigurjóns. „Fólk sem skrifaði í blaðið hefur haft samband og ætlar flest að vera með áfram, sem betur fer, þeirra á meðal Freyja Jónsdóttir. Birgitta Halldórs er með kvæðaþátt í fyrsta blaðinu og er meira að segja búin að skila í desemberblaðið,“ segir hann. „Þetta lofar góðu.“

Forsetinn prýðir fyrsta blaðið.