Leikhúsgestum í Tjarnarbíó býðst nú að kolefnisjafna leikhúsferðina þegar miðar eru keyptir á netinu. Framtakið græna er afrakstur samstarfs á milli Tjarnarbíós, tix.is og Kolviðar – Iceland Carbon Fund.

Þar býðst gestum að greiða 150 krónur til viðbótar við miðann sinn sem rennur óskipt til Kolviðar sem sér um að gróðursetja tré fyrir upphæðina, en gestum er frjálst að greiða meira ef þeir vilja.

„Ég vildi svo mikið geta sagt að þetta hafi verið mín hugmynd en þá væri ég að ljúga,“ segir Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós. „Ég bjó í Bretlandi í fimm ár og þar hefur lengi verið hægt að gera svona til að styrkja góðgerðarstarfsemi eða loftslagsmál. Þetta er svo auðveld leið til að verða grænni og það er rosagaman að við getum verið fyrst til að gera þetta – litlu við!“

Tjarnarbíó mun þá einnig greiða fyrir kolefnisjöfnun á öllu prentverki hússins á borð við kynningarbæklinga og leikskrár.

„Það kom í ljós þegar ég talaði við Kolvið að það kostar ekki svo mikið að kolefnisbinda allt það sem við prentum,“ segir hún. „Meira að segja lítil batterí eins og við getum tekið þátt í svona.“