Guðni Ágústsson leiðir göngutúr um Laugarnesið á morgun, þar sem hann mun fræða gesti um Hallgerði langbrók.Njáluunnandinn Guðni Ágústsson stendur fyrir Hallgerðargöngu í Laugarnesinu á morgun, laugardag. Þar mun hann flytja erindi um Hallgerði langbrók áður en hann leiðir gesti í stuttan göngutúr um svæðið þar sem Hallgerður lauk ævi sinni.

„Njáls saga er ein merkilegasta bók Íslendinga og heimsfræg,“ segir Guðni. „Hún segir frá svo mörgu merkilegu, þar á meðal Hallgerði langbrók, sem á mikið erindi við samtímann.“

Guðni segir Hallgerði sér mjög hugleikna. Hann hafi fyrirgefið henni alla sína reiði, því hann hataði hana sem strákur.

„Ég áttaði mig síðar á því að hún var auðvitað frelsishetja kvenna og dætra okkar,“ segir hann. „Hún hafði mikil áhrif á kvennabaráttuna á sinni tíð og á mikið erindi við samtímann.“

Hallgerður glímdi við ýmsa erfiðleika frá unga aldri, á borð misnotkun og síðar einelti.

„Fóstri hennar misnotaði hana í æsku og það var mikið ástand í heimilislífi hennar sem barn,“ segir Guðni. „Þessi fallega stúlka gekk leið sem margar stúlkur hafa gengið.“

Þá átti Hallgerður í stormasömum hjónaböndum við þrjá menn.

„Kinnhesturinn reyndist þeim banvænn í hvert sinn, hvort sem það var Þorvaldur á Staðarfelli, Glúmur á Varmalæk eða Gunnar á Hlíðarenda,“ segir Guðni. „Það kostaði þá alla lífið.“

Að lokum lauk Hallgerður ævi sinni í Laugarnesi í Reykjavík, en þá jörð eignaðist hún í skiptum fyrir Varmalæk í Borgarfirði.

„Ég mun segja betur frá því hvar hún var grafin í kirkjugarðinum nokkru eftir að Íslendingar tóku kristni.“

Hallgerði ætti að reisa styttu

Guðni hefur frá unga aldri verið hugfanginn af Njálu og hefur sent frá sér mikið efni tengt sögunni. Hann hefur áður gengið með Hallgerði á Þingvöllum, sem og Skarphéðni og Gunnari. Þá las hann inn Njálu í hljóðbókarformi fyrir Storytel. Honum er einnig minnisstætt þegar hann hitti Hallgerði í Laugarnesinu þegar hann skrifaði samnefnda bók sína.

„Þá hitti ég hana þarna á hólnum,“ segir hann. „Hún sat í sólskininu og hárið var fagurt og mikið sem silki. Það ætti í rauninni að reisa styttu af henni í Laugarnesinu því hún er svo gríðarlega merkileg í sögunni. Mér finnst að konur eigi að vera óhræddar við að vitna til hennar, enda var hún fyrsta konan í Íslandssögunni sem reis upp gegn ofbeldi karla og feðraveldinu.“

Athöfnin hefst klukkan 11 í Laugarnesinu og tekur um klukkutíma. Guðni hvetur áhugafólk um Íslendingasögurnar og kvenréttindi til að mæta og taka þátt.

„Njáls saga liggur okkur svo nærri og er sönn þjóðargersemi.“