Það var Ósvald Knudsen kvikmyndagerðarmaður sem reisti húsið að Laxabakka við Sog af listfengi og alúð árið 1942. Það er samdóma álit f lestra sem til þekkja að það sé byggingarsöguleg perla og hreint menningar-hryðjuverk ef það er látið glatast,“ segir Hannes Lárusson, sem stendur fyrir málþingi um verndun Laxabakka sem hefst klukkan 13 í dag að Austur-Meðalholtum í Flóa.  

Hannes er þekktur fyrir að leggja rækt við torf bæjararfleifðina og kveðst hafa fest kaup á Laxabakka í trausti þess að hann gæti bjargað honum en deilur við nágranna valdi því að húsið sé að verða eyðileggingu að bráð.  

„Laxabakki er þjóðargersemi og við erum tilbúin með áætlun um að laga hann og byggja svæðið upp. Það útheimtir fyrst og fremst kunnáttu, við höfum hana og erum tilbúin að leggja hana fram fyrir ekki neitt,“ segir hann og bætir við að þegar hinn heimsfrægi finnski arkitekt Alvar Aalto hafi komið til landsins til að vera við opnun Norræna hússins 1969 hafi hann heimsótt Laxabakka og látið þau orð falla að það væri fallegasta hús sem hann hefði séð á Íslandi. „Húsið er raunverulega að hrynja og  Minjastofnun hefur heldur ekkert getað aðhafst, þrátt fyrir mikinn áhuga.“ 

Hannes segir ýmsa sérfræðinga landsins innan byggingarlistar, handverks, náttúru-  og minjaverndar verða með erindi á málþinginu í dag, myndir verði sýndar  af húsinu og svæðinu og Eyjólfur Eyjólfsson söngvari muni f lytja lagið Sveitin milli sanda, eftir Magnús Blöndal Jóhannsson, enda hafi sú perla verið samin að frumkvæði Ósvalds Knudsen, upphaflegs hönnuðar og eiganda Laxabakka. „Ég vona að þetta málþing verði til þess að Laxabakka verði bjargað,“ segir Hannes. „Það má ekki tæpara standa.“