Ljósmyndasýningin Man ég fjallið eftir Lauru Valentino opnar á fimmtudag í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Valentino flutti til Íslands árið 1988 og hefur tekið þátt í mörgum sýningum hér á landi og erlendis sem málari og grafíklistamaður.

Í sýningunni sem nú stendur fyrir dyrum kannar listamaðurinn fegurð og munúð í sígildu myndefni eins og fólki og landslagi. Sjálf lýsir hún sýningunni sem framhald af verki sínu Andlit jarðar. “Eða öllu heldur minning mín af vinnslu þess verkefnis. Með því að endurvinna ljósmyndir sem ég tók fyrir nokkrum árum öðluðust þær sjálfstætt líf og fengu á sig draumkenndan blæ,” segir Valentino og segir landslag, líkt og manneskjur, síbreytilegt. “Það er erfitt að staðsetja hvort tveggja í ákveðnu augnabliki. Þættir eins og veðurfar, árstíðir, birta, náttúruöfl og athafnir manneskjunnar hafa áhrif á skynjun okkar á því sem fyrir augu ber.“

Sýningin ber yfirskriftina Man ég fjallið.

Valentino lýsir því að hún noti hefðbundnar ljósmyndunaraðferðir til að fanga hið “eilífa og almenna” í hversdagslegum viðfangsefnum.

Valentino flutti til Íslands, líkt og áður segir, fyrir rúmum þremur áratugum. Hún lítur fyrst og fremst á sig sem grafíklistamann en hefur unnið með ljósmyndir frá því á tíunda áratugnum. Hún er meðal stofnenda Félags filmuljósmyndara á Íslandi.

Sýning Valentino stendur til 21. ágúst.