Tónarnir verða ómandi í Lista­safni Ár­nesinga í dag þar sem tón­listar­maðurinn og þjóð­fræðingurinn Eyjólfur Eyjólfs­son stýrir lang­spils­smiðju. Eyjólfur mætir þar með ein tíu lang­spil, spjallar um hljóð­færið í sögu­legu sam­hengi og fer yfir spilunar­mátann og kennir svo nokkur þjóð­lög sem falla vel að hljóð­færinu.

„Þetta er bara lang­spils­djamm,“ segir Eyjólfur sem spinnur smiðjuna út frá því hverjir mæta hverju sinni. „Þegar ég var með þetta á óperu­dögum í Nor­ræna húsinu mættu til að mynda nokkrir söngvarar með börnin sín og þá rigguðum við bara upp lang­spils­hljóm­sveit þar sem krakkarnir spiluðu undir söng for­eldranna og svo sungu allir saman. Fólk er fljótt að ná undir­stöðu­at­riðunum því þú plokkar bara eða strýkur strengina og ert þar með orðinn gjald­gengur í lang­spils­sveitina.“

Smiðjur Eyjólfs segir hann vera fram­hald af meistara­rann­sókn sinni í þjóð­fræði um lang­spilið sem hann kláraði 2020. Hann hefur einnig verið að sinna verk­efni í Flóa­skóla þar sem hann smíðar lang­spil með nem­endunum í 5. bekk í sam­starfi við FabLab á Sel­fossi.

„Mig langar að finna þessu far­veg í skóla­kerfinu og hef verið að nýta þessar lang­spils­smiðjur til að þróa verk­efnið – finna betri flöt og út­færslur á því,“ segir hann.

Lang­eleik eða hum­mel

Það eru ekki til margar heimildir um lang­spils­leik fyrr á öldum svo það eru skiptar skoðanir á því hve­nær hljóð­færið hafi komið til landsins.

„Elstu heimildir um lang­spils­leik eru ekki nema frá á­tjándu öld,“ segir Eyjólfur. „Það má þó geta sér til um að lang­spilið hafi komið hingað mun fyrr, ef til vill með Hansa­kaup­mönnum, því þessi tegund hljóð­færa sem lang­spilið til­heyrir, bor­dún-sítarar, hefur lengi verið hluti af evrópskri al­þýðu­menningu og víðar.“

Lang­spilið er yfir­leitt talið skildast norska hljóð­færinu lang­eleik en í Norður-Þýska­landi og Hollandi segir Eyjólfur að sítar­af­brigðið hum­mel sé í raun líkara lang­spilinu. „Þessi tegund af hljóð­færum hefur að minnsta kosti verið hér mjög lengi.“

Eyjólfur kynntist hljóð­færinu fyrst í gegnum fjöl­skyldu­hljóma­sveitina Spil­menn Ríkínís, Örn Magnús­son, Mörtu Guð­rúnu Hall­dórs­dóttur og börnum þeirra, og heillaðist af hljóð­heiminum út frá nálgun þeirra á lang­spilið.

„Þarna komu saman svo mörg á­huga­mál mín í einu fyrir­bæri því ég hef lengi haft á­huga á þjóð­legum fróð­leik sem tengdist inn í tón­listina,“ segir hann. „Mér finnst hvað mest heillandi við menningar­arf hvernig hann ferðast þvert á landa­mæri og lang­spilið er þar engin undan­tekning, því það er í beinni fagur­fræði­legri tengingu við evrópska upp­runa­stefnu fyrri tíðar tón­listar og þjóð­laga­hefðir í Asíu­löndum.“