Tónarnir verða ómandi í Listasafni Árnesinga í dag þar sem tónlistarmaðurinn og þjóðfræðingurinn Eyjólfur Eyjólfsson stýrir langspilssmiðju. Eyjólfur mætir þar með ein tíu langspil, spjallar um hljóðfærið í sögulegu samhengi og fer yfir spilunarmátann og kennir svo nokkur þjóðlög sem falla vel að hljóðfærinu.
„Þetta er bara langspilsdjamm,“ segir Eyjólfur sem spinnur smiðjuna út frá því hverjir mæta hverju sinni. „Þegar ég var með þetta á óperudögum í Norræna húsinu mættu til að mynda nokkrir söngvarar með börnin sín og þá rigguðum við bara upp langspilshljómsveit þar sem krakkarnir spiluðu undir söng foreldranna og svo sungu allir saman. Fólk er fljótt að ná undirstöðuatriðunum því þú plokkar bara eða strýkur strengina og ert þar með orðinn gjaldgengur í langspilssveitina.“
Smiðjur Eyjólfs segir hann vera framhald af meistararannsókn sinni í þjóðfræði um langspilið sem hann kláraði 2020. Hann hefur einnig verið að sinna verkefni í Flóaskóla þar sem hann smíðar langspil með nemendunum í 5. bekk í samstarfi við FabLab á Selfossi.
„Mig langar að finna þessu farveg í skólakerfinu og hef verið að nýta þessar langspilssmiðjur til að þróa verkefnið – finna betri flöt og útfærslur á því,“ segir hann.
Langeleik eða hummel
Það eru ekki til margar heimildir um langspilsleik fyrr á öldum svo það eru skiptar skoðanir á því hvenær hljóðfærið hafi komið til landsins.
„Elstu heimildir um langspilsleik eru ekki nema frá átjándu öld,“ segir Eyjólfur. „Það má þó geta sér til um að langspilið hafi komið hingað mun fyrr, ef til vill með Hansakaupmönnum, því þessi tegund hljóðfæra sem langspilið tilheyrir, bordún-sítarar, hefur lengi verið hluti af evrópskri alþýðumenningu og víðar.“
Langspilið er yfirleitt talið skildast norska hljóðfærinu langeleik en í Norður-Þýskalandi og Hollandi segir Eyjólfur að sítarafbrigðið hummel sé í raun líkara langspilinu. „Þessi tegund af hljóðfærum hefur að minnsta kosti verið hér mjög lengi.“
Eyjólfur kynntist hljóðfærinu fyrst í gegnum fjölskylduhljómasveitina Spilmenn Ríkínís, Örn Magnússon, Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur og börnum þeirra, og heillaðist af hljóðheiminum út frá nálgun þeirra á langspilið.
„Þarna komu saman svo mörg áhugamál mín í einu fyrirbæri því ég hef lengi haft áhuga á þjóðlegum fróðleik sem tengdist inn í tónlistina,“ segir hann. „Mér finnst hvað mest heillandi við menningararf hvernig hann ferðast þvert á landamæri og langspilið er þar engin undantekning, því það er í beinni fagurfræðilegri tengingu við evrópska upprunastefnu fyrri tíðar tónlistar og þjóðlagahefðir í Asíulöndum.“