Á áttunda áratugnum fór fram fornleifarannsókn í Reykjavík með það að markmiði að staðsetja og kanna fyrsta bústað Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns og konu hans Hallveigar Fróðadóttur. Rannsóknin var unnin á vegum Reykjavíkurborgar og var stjórnað af sænska fornleifafræðingnum Else Nordahl. Sigurður Sigurðarson dýralæknir var fenginn til að greina dýrabein sem fundust við uppgröftinn.

„Ég skoðaði hluta beinanna úr uppgreftrinum þar sem ég var bundinn við baráttu gegn riðuveiki í sauðfé, sem þá var að komast á alvarlegt stig og að breiðast um landið,“ segir Sigurður. „Else hafði samband við mig og fékk mér í hendur bein sem fundist höfðu við uppgröft.“

Beinin sem Sigurður fékk í hendurnar höfðu að sögn Else fundist undir og í öskulagi sem var dýpst á rannsóknarsvæðinu, svokölluðu landnámslagi þar sem var eldfjallaaska frá því um 1000.

„Beinin, sem voru flest hver mjög illa farin og urðu að mylsnu þegar þau voru handleikin, voru úr kindum, hrossum og nautgripum,“ segir Sigurður. „Örfá bein af þessu safni voru með nokkurn veginn eðlilegu útliti og það sem réð því hvað þau höfðu varðveist vel að mínum dómi var að þau höfðu verið í öskulagi sem hafði haldið raka frá þeim og hindrað fúa.“

Valnastakkur Andrésar

Beinin voru ekki talin hafa þýðingu fyrir rannsóknina en Sigurður hikaði við að henda þeim heldur geymdi í stofuskáp á heimili sínu þar sem þau hafa varðveist, að einni beinvölu undantekinni sem Sigurður gaf Andrési Valberg, félaga sínum úr Kvæðamannafélaginu Iðunni.

„Andrés hafði gert sér valnastakk sem hann fór í við hátíðleg tækifæri en hafði ekki fullkomnað hann, þar sem efst á stakkinn vantaði eina röð af völum svo hann væri varinn gegn óvæntu sverðshöggi,“ segir Sigurður. „Ég afhenti honum völuna á samkomu Iðunnar að Löngumýri í Skagafirði árið 1992 og sagði honum að ef til vill mætti kalla hana landnámsvölu frá Ingólfi Arnarsyni og Hallveigu Fróðadóttur.“

Andrés eftirlét síðar valnastakkinn eða landnámsstakkinn Byggðasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki þar sem valan var aldursgreind að hans sögn á árabilinu 870-900.

Mynd/Aðsend


Heimildabrunnurinn dýpkar

Í gær afhenti Sigurður Þjóðminjasafninu til varðveislu þrjár völur úr haustlömbum og eina úr hrossi sem fundust í bæjarstæðinu. Meðal viðstaddra voru Margrét Hallgrímsdóttir, fyrrverandi þjóðminjavörður og Þorbjörg Gunnarsdóttir, starfandi þjóðminjavörður.

„Það skiptir máli fyrir Þjóðminjasafnið að dýrabein frá fortíðinni skili sér inn í heimildabrunninn sem varðveittur er í safninu,“ sagði Margrét við afhendinguna. „Þetta fannst fyrir áratugum síðan og það er gott að þessar heimildir skili sér inn til safnsins.“

Völurnar verða svo sendar til Varðveislu- og rannsóknarmiðstöðvar Þjóðminjasafnsins í Hafnarfirði.

„Svona bein hafa oft fundist við fornleifarannsóknir en fyrr á tímum var þess kannski ekki alltaf jafnvel gætt að varðveita svona heimildir sem segja mikið til um mataræði, veðurfar, lífsstíl og annað. Það skiptir jafnmiklu máli að varðveita þessar leifar eins og sverð eða aðra muni,“ segir Margrét.

Sigurður segist hafa verið alinn upp við að hafa virðingu og ást á öllu því sem gamalt var. „Þess vegna gat ég ekki hugsað mér að henda þessu,“ segir hann. „Þegar þetta var grafið upp var kannski annar hugsunarháttur en nú er orðinn.“