Snælda er lagasmíðanámskeið fyrir konur á aldrinum 16-20 ára en þar munu nokkrir af vinsælustu poppurum landsins kenna helstu undirstöður í hljóðupptökum og lagasmíðum. Námskeiðið verður algjörlega ókeypis.

Snælda nefnist námskeið sem haldið er af 101derland og Les Fréres Stefson og er ætlað fyrir tónlistarkonur á aldrinum 16-20. Bræðurnir Unnsteinn Manuel og Logi Pedro Stefánssynir ásamt Jófríði Ákadóttur (JFDR ) munu leiðbeina þessum ungu konum í helstu undirstöðuatriðum við lagasmíðar. Námskeiðið fer fram í hljóðverinu 101derland og fá þær kennslu í Ableton live, helstu tækni­atriðum sem þarf að kunna við hljóðupptökur, auk þess sem þeim verður leiðbeint í sjálfri tónlistarsköpuninni og þær fá ómetanlega innsýn í tónlistarbransann frá þessum þremur reynsluboltum sem sjá um námskeiðið.

Hægt er að sækja um námskeiðið núna en það fer fram eftir akkúrat mánuð, þann 18. febrúar. Það stendur til 18. mars og verður kennt þrisvar í viku: mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, þrjá tíma í senn.

Gestakennarar verða á námskeiðinu enda slatti af vinsælu tónlistarfólki sem tekur upp tónlist sína í hljóðverinu 101derland og gefur út undir merkjum þess. Þessir gestir verða meðal annars Jóhann Kristófer Stefánsson, eða Joey Christ, félagarnir Birnir og Flóni, Young Karin og Sturla Atlas.

Námskeiðið verður algjörlega ókeypis og er pláss fyrir 10 stelpur á því. Til að sækja um þarf að senda póst á info@101derland og merkja póstinn SNÆLDA – umsókn. Í umsókninni þarf að koma fram nafn, kennitala, reynsla í tónlist, helstu áhrifavaldar í tónlist og linkur á eigin tónlist ef til er. Umsóknarfrestur er til 3. febrúar. stefanthor@frettabladid.is