Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, mun á fimmtudagskvöldið 4. júlí leiða árlega Þingvallagöngu þar sem sagt er frá fornum köppum sögualdar. Þar verður hann ásamt fríðu föruneyti á Þingvöllum. „Þar verða sagnir af þekktum köppum á borð við Egil Skallagrímsson. Þar er búist við því að loks dreifi Egill silfri sínu yfir þingheim,“ segir Guðni og vísar til Egilssögu þar sem Egill áttræður vildi til þings með kistur tvær fullar af ensku silfri fengnar frá Aðalsteini konungi.

Gangan hefst við Hakið kl. 20.00 og þaðan er farið að Lögbergi hinu forna og Þingvallakirkju þar sem fólk þiggur veitingar í göngulok. Guðni segir að Karlakór Kjalnesinga muni stýra kraftmiklum söng á milli atriða. „Hann Ragnar Önundarson mun í lokin svara spurningunni um hvort höfundur Eglu hafi verið platónisti,“ segir Guðni.

Guðni hvetur sem flesta til Þingvalla. „Þetta verður mjög skemmtileg ganga. Hún kostar ekkert og það eru allir velkomnir!“