Ný útvarpsþáttaröð hefur göngu sína á Rás 1 á morgun sem ber heitið Kventónskáld í karlaveldi. Þar fjallar Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur um ævi og tónlist kventónskálda sem fæddar voru á 19. öld, þegar konur höfðu mun færri tækifæri en karlar til að mennta sig í tónsmíðum eða fá verk sín flutt.

„Hugmyndin kviknaði út frá starfi mínu sem listrænn ráðgjafi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hefur verið mikill áhugi undanfarin ár að auka hlut kvenna á efnisskrá sveitarinnar,“ segir Árni Heimir.

„Í þessari viðleitni hef ég hlustað á mikið af tónlist eftir konur og mér fannst bæði verkin og sögur þessara kvenna svo merkileg að mér fannst þetta eiga erindi í víðara samhengi en bara að verk þeirra hljómuðu á tónleikum.“

Ólík skilyrði

Þættirnir verða alls tíu og mun Árni Heimir fjalla um eitt kventónskáld í hverjum þætti.

„Þær bjuggu við mjög ólík starfsskilyrði og ég ætla að skoða hvernig umhverfið hvatti þær ýmist áfram eða setti þeim miklar hömlur og skorður,“ segir hann. „Stundum stóðu fjölskyldumeðlimir, oft bræður og feður, í vegi fyrir því að þær fengju að njóta sín eins og þær hefðu getað gert. Aðrar áttu svo eiginmenn sem studdu þær dyggilega og hjálpuðu þeim að koma verkum sínum á framfæri.“

Á meðan Árni Heimir rekur æviskeið kvennanna mun svo tónlist þeirra hljóma í bland, svo áheyrendur fái smjörþefinn af verkum þeirra. Árni Heimir segir þáttaröðina í raun tvöfalda, því að auk þáttanna eru hlustunarþættirnir á sunnudagskvöldum sem nefnast Þögnin rofin, þar sem verkin fá að njóta sín í heild.

Þýski píanistinn og tónskáldið Clara Schumann verður tekin fyrir í fyrsta þætti Kventónskáld í karlaveldi.

Breyttar áherslur

Tónskáldin sem fjallað verður um í þáttunum voru fædd á árunum 1805 til 1893: Clara Schumann, Fanny Mendelssohn, Emilie Mayer, Louise Farrenc, Cécile Chaminade, Mel Bonis, Ethel Smyth, Dora Pejacevic, Lili Boulanger og Florence Price. Árni Heimir segir að ef viðtökur þáttanna verði góðar komi til greina að taka fyrir fleiri tímabil.

„Þetta er áhugavert tímabil því að fyrr á öldum var ótrúlega lítið um að konur hefðu tækifæri til að stunda tónsmíðar,“ segir hann. „Þarna var að verða hægfara breyting þar sem gerist mjög margt. Undir lok 19. aldar voru konur til dæmis farnar að hafa aðgang að tónsmíðanámi í háskólum, sem hafði ekki þekkst áður.“

Þá segir Árni Heimir að verk kvennanna séu orðin mun aðgengilegri í dag en áður.

„Það hefði ekki verið hægt að gera svona þáttaröð fyrir tíu árum síðan,“ segir hann. „Upptökurnar voru bara ekki til. En það hefur verið að breytast, og útgefendur og plötufyrirtæki hafa verið að bregðast við þeirri kröfu að fólk vill fá að heyra verk þessara kvenna.“