Ævi og störf Valgerðar Jónsdóttur biskupsfrúr er viðfangsefni nýuppsettrar sýningar í Landsbókasafni Íslands.

Í tilefni þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu Valgerðar Jónsdóttur biskupsfrúar, hefur verið sett upp sýning í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, um ævi hennar og störf. Valgerður hefur mjög sterk tengsl við handritasafn Landsbókasafnsins en handrit sem hún seldi safninu eru talin marka stofnun handritasafnsins 1846.

„Það eru þá tæplega 400 handrit sem hún selur úr sinni eigu, en síðan þá hefur safnið stækkað og telur nú yfir 15 þúsund handrit,“ segir Halldóra Kristinsdóttir, sérfræðingur á handritasafninu, sem er höfundur sýningarinnar ásamt Erlu Huldu Halldórsdóttur, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. „Okkur er ljúft og skylt að halda minningu þessarar merkilegu konu á lofti.“

Valgerður fæddist árið 1771 og var gift tveimur biskupum, Hannesi Finnssyni (1739–1796) og Steingrími Jónssyni (1769–1845).

„Hannes var fimmtugur og hún átján ára þegar þau giftu sig,“ segir Halldóra. „Hún verður síðan ekkja tuttugu og fimm ára eftir sjö ára hjónaband og stendur ein fyrir búi í Skálholti í ein tíu ár.“

Valgerður átti töluverðar eignir og margar jarðir og stóð í miklum viðskiptum á þeim tíma. „Hún stóð í bátaútgerð, átti rekaítök og hvað eina,“ útskýrir Halldóra. „Hún giftist svo Steingrími Jónssyni sem var á hennar aldri, en hann hafði verið skrifari hjá manninum hennar og kennari barna þeirra.“

Það segir sitt að Valgerður fékk ekki sinn eigin legstein, heldur er nafn hennar fest neðst aftan á legstein Steingríms.

Þegar Steingrímur lést á undan Valgerði ákvað hún að selja handritasafnið sem hafði orðið til á biskupsheimilunum tveimur. „Valgerður hefur verið aðeins falin í sögunni,“ segir Halldóra. „Það er svo oft talað um hana sem eiginkonu þessara manna, sem voru vissulega stórmerkilegir, en það var hún líka.“

Fjölhæf fyrirmynd

Á sýningunni er rýnt í ýmsa þætti í lífi Valgerðar, en auk þess að vera stóreignakona var hún líka mikil fyrirmynd annarra kvenna hvað varðaði tísku og hússtjórn.

„Það er talið að hún hafi fyrst klæðst því sem er kallaður húfubúningur, og á sýningunni drögum við fram áhrif hennar á tísku,“ segir Halldóra og vísar meðal annars í fatnað sem má finna í dánarbúi hennar. Til þess að fá aukna innsýn inn í fatnaðinn fengu Halldóra og Erla Hulda til liðs við sig Guðrúnu Hildi Rosenkjær sagnfræðing og kjólameistara hjá Annríki. „Við reynum að draga fram hvað hún átti og hvað það segir um hennar stöðu í samfélaginu.“

Á sýningunni má líka finna ýmis skjöl og sendibréf sem skrifuð voru af Valgerði og til hennar, þar á meðal bréfabók sem hún hélt á því tíu ára tímabili sem hún var ein eftir að hún varð ekkja í fyrsta skipti.

„Þar eru bæði persónuleg og viðskiptaleg bréf sem eru í raun alveg einstök heimild því þótt það séu til bréfabækur frá þessum tíma þá eru þær aðallega frá körlum,“ segir Halldóra. „Við erum ekki að reyna að segja ævisögu Valgerðar á þessari sýningu en viljum varpa ljósi á hvernig kona hún hefur verið.“

Áhrif Valgerðar á tísku landsins eru tekin fyrir á sýningunni.