Reykjavík Feminist Film Festival rúllar af stað í fjórða skipti í kvöld og stendur yfir fram á sunnudag. Eins og áður er hátíðin í ár smekkfull af stuttmyndum og myndum í fullri lengd í leikstjórn kvenna víðs vegar um heim.

„Stemningin er svakaleg þótt hlutirnir hafi aðeins verið á síðasta snúningi hjá okkur,“ segir Lea Ævarsdóttir, stjórnandi hátíðarinnar. „Við erum með ótrúlega flott teymi af sjálfboðaliðum og starfsfólki sem hefur verið hér frá upphafi og það er gríðarlegur spenningur.“

Lea segir spurninguna um hvaða lönd eigi fulltrúa á hátíðinni ekki eiga við, heldur miklu frekar hvaða lönd eigi það ekki.

„Við erum með myndir frá Frakklandi, Argentínu, Portúgal og svo auðvitað mikið af myndum frá Norðurlöndunum því við erum í samstarfi við Norræna húsið við þeirra kvikmyndahátíð, Nordic Film Focus.“

Lea segir samstarfið dýrmætt meðal annars þar sem norrænu sendiráðin flytja inn leikstýrurnar og fleiri aðila sem koma að myndunum sem gesti á hátíðina í ár. „Við fáum til að mynda gesti frá Grænlandi, Namibíu og Bandaríkjunum og verðum með mikið af pallborðsumræðum.“

Nordic Film Focus er árlegt samstarf Norræna hússins í Reykjavík og norrænu sendiráðanna á Íslandi og er dagskráin í ár í myrkari kantinum, uppfull af sálfræði­tryllum og hryllingi sem viðfangsefni.

„Viðfangsefnið er oft mjög sálfræðilegt og tengt því hvað konur geta verið fastar í ákveðnum skorðum,“ segir Lea.

Lea á erfitt með að velja úr þegar hún er beðin að benda á hverju megi síst missa af á Reykjavik Film Festival í ár.

„Opnunarmyndin okkar í ár er Inno­cence eftir Lucile Hadžihalilović,“ segir Lea. „Vinkona mín benti mér á hana í haust og myndirnar hennar eru svo klikkaðar og öðruvísi að ég hef aldrei séð annað eins. Mér þykir svo furðulegt að ég hafi aldrei heyrt um hana áður.“

Þá bendir Lea einnig á samstarf við tvær aðrar erlendar kvikmyndahátíðir.

„Það er annars vegar WOFFF, Women Over Fifty Film Festival, sem breska sendiráðið kemur með, og það er einstakur kvikmyndapakki sem kemur inn frá þeim,“ segir hún. „Síðan erum við í samstarfi við Wench Film Festival frá Mumbai – þær myndir eru sko myrkar. Þetta er vísindaskáldskapur og hryllingur í samsoðningi sem þú hefur ekki séð áður.“

Dagskrá hátíðarinnar í heild má finna á heimasíðu Reykjavik Film Festival.