Bjarni Frímann Karlsson varð sjötugur þann 20. september síðastliðinn og stendur hann nú á stórum tímamótum þar sem hann er á leið á eftirlaun eftir að hafa sinnt kennslu í áraraðir. Bjarni hefur frá árinu 2005 kennt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Hann hóf feril sinn sem grunnskólakennari og starfaði sem slíkur í rúma tvo áratugi en breytti svo um stefnu í lífinu.

„Það var nú svolítið asnalegur ferill hjá mér,“ segir Bjarni og hlær sínum smitandi hlátri. „Ég lærði og kenndi íslensku og sögu, svo þegar ég var ég farinn að þreytast svolítið á því og stóð frammi fyrir því að geta farið í námsleyfi í eitt ár frá grunnskólakennslunni fór ég í viðskiptafræði í einhverju fikti,“ segir hann.

„Þarna var ég að verða fertugur en fram að þessu hefði viðskiptafræði verið síðasta fagið sem ég hefði getað hugsað mér að læra. En mér fannst þetta skemmtilegt strax í byrjun og kláraði námið meðfram kennslunni árin á eftir,“ segir Bjarni.

Hann segir að honum hafi líkað öll fögin í skólanum vel, nema eitt. „Eitt fag fannst mér alveg ömurlegt og það var reikningshald, sem ég er svo búinn að vera að kenna sjálfur,“ segir hann brosandi.

Bjarni er ekki sá eini sem telur reikningshald með leiðinlegri áföngum sem kenndir eru í viðskiptafræðinni en þrátt fyrir það er áfanginn vinsæll meðal nemenda sem segja margir skemmtilegan karakter Bjarna ástæðuna.

„Ég er nú alltaf svolítið minnugur þess hvað mér fannst þetta ofboðslega leiðinlegt þegar ég var að byrja í viðskiptafræði. Ég náði einhvern veginn alls ekki takti við þetta svo ég hef reynt að forðast að gera þetta á sama hátt og þessu var haldið að mér hérna fyrst,“ segir hann.

Bjarni leggur áherslu á það að setja efnið skýrt fram fyrir nemendur ásamt því að „krydda“ það með sögum og frásögnum tengdum efninu.

„Margar af þessum sögum eru nú sorgarsögur því að maður er dálítið að nefna hvernig eigi ekki að gera reikningsskil því að það sem er mikilvægast er það að þau séu trúverðug og að samfélagið geti treyst þeim,“ segir Bjarni.

„Svo er það þannig að því lengra sem nemendurnir eru komnir í náminu því meira er hægt að krydda námsefnið og gera það skemmtilegt, það snýr bara að því að þau eru komin með dýpri skilning á námsefninu, og ég hef orðið var við það hjá nemendum að þeim þyki þetta gaman, eða kannski ekki gaman en allavega fróðlegt,“ segir hann.

Bjarni kveður Háskólann, samstarfsfólk sitt og kennsluna með trega en segir þó tíma til kominn að hleypa nýju fólki að. „Ég mun klárlega sakna þess að kenna, en þetta er nú samt komið gott,“ segir Bjarni.

Hann hlakkar til að njóta lífsins en segir heilsuna góða svo að hann muni taka að sér verkefni af ýmsu tagi. Bjarni þýddi teiknimyndasögur með fram grunnskólakennslunni í áraraðir og hefur hann tekið upp á því að nýju síðustu ár. Hann hefur þýtt rúmlega hundrað sögur af Viggó viðutan, Sval og Val, Hinum fjórum fræknu og Goðheimum.

„Þeir gáfu ekki út alla seríuna af Goðheimum á sínum tíma svo að ég hef nú tekið eina bók á ári og rifjað þetta aðeins upp og það er mjög gaman,“ segir Bjarni

„Þetta eru ekki eins vitlausar bókmenntir og margir vilja vera láta, gömlu kollegar mínir úr íslenskunni ömuðust mikið við þessu og fannst það fyrir neðan virðingu íslenskumanna að þýða svona bókmenntir og að þær eyðilegðu lestraráhugann hjá börnum, en öðru nær, ég held að teiknimyndasögur geti orðið til þess að börn læri fyrr að lesa eða læri að lesa yfirhöfuð. Ég er bara mjög stoltur af því að hafa komið að þýðingum þessara bóka,“ segir Bjarni.