Fyrsta bók George R. R. Martin um Krúnuleikana, Game of Thrones, kom út á þessum degi árið 1996. Þar með hófst sagan sem enn sér ekki fyrir endann á en sjöttu bókarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu. HBO gerði samnefnda þætti sem þykja einir bestu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið. Flestir eru þó sammála um að þættirnir urðu frekar útþynntir þegar þeir tóku fram úr bókunum.

Samúel Karl Ólason, blaðamaður á Vísi, er einn helsti aðdáandi landsins er kemur að bókunum og þáttunum en pistlar hans á Vísi um þættina slógu í gegn og voru yfirleitt mest lesnir. Hann stökk þó frekar seint á vagninn.

„Er orðið svona langt síðan fyrsta bókin kom?“ spyr Samúel. Hann las fyrstu þrjár bækurnar nánast í einni samfelldri runu en hver bók telur ansi margar blaðsíður. „Eftir að fyrsta þáttaröðin kom út fór ég að lesa. Ég kem seint um borð í vagninn en ég las fyrstu þrjár bækurnar í einni rispu, nánast á nokkrum dögum. Fjórða bókin kom nánast um leið og ég klára þá þriðju í nóvember 2005. Svo tók við biðin langa eftir fimmtu sem tók sex ár en hún var þó ekki löng í ljósi þess að sjötta bókin er enn ekki komin út,“ segir Samúel og bendir á að ellefu ár eru liðin síðan fimmta bókin kom út. „Þessi bið er vægast sagt erfið.“

Eftir fyrstu bókina, sem fékk verðskuldaða athygli og vann til fjölda verðlauna, kom A Clash of Kings tveimur árum síðar. A Storm of Swords birtist í búðarhillum árið 2000 og fimm árum síðar kom A Feast for Crows. Sú fór á toppinn á vinsældalista New York Times. Fimmta bókin, A Dance with Dragons, kom loks árið 2011 og varð ein mest selda bók þess árs. Síðan hefur Martin lent í ritstíflu og biðin lengist og lengist. The Winds of Winter og lokabókarinnar, A Dream of Spring, er beðið með mikilli eftirvæntingu.

Krúnuleikarnir voru gerðir að sjónvarpsseríu sem birtist á skjáum heimsbyggðarinnar árið 2011. Eðlilega tóku sjónvarpsseríurnar fram úr bókunum og við það þynntist plottið og karakterarnir misstu nánast allan sinn lit. Engu að síður er serían af mörgum talin til meistaraverka sjónvarps og margir horfa árlega á allar seríurnar.

Samúel þarf líka að vanda sig og hugsar sig vel um áður en hann ákveður hvað hann vilji segja um sjónvarpsseríuna. Trúlega væri hægt að skrifa það upp sem hann sagði en þá þyrfti að banna blaðið innan 16. „Þættirnir tóku töluverða dýfu þegar það var farið fram úr bókunum. Sagan þynnist og hún heldur minna vatni. Verður undarlegri og í raun bara verri,“ segir hann eftir ræðuna sem var bönnuð börnum.

Samúel segir að það sem geri bækurnar góðar sé persónusköpun Martins. „Þetta eru mannlegar persónur. Í Hringadróttinssögu eru persónurnar vondar eða góðar. Aragorn gerði aldrei neitt rangt. En þarna eru gallaðar mannverur í fantasíuheimi og þess vegna nær þetta til allra hópa. Það eru ekki bara fantasíunördar sem tengja. Þarna eru ástir og örlög, bardagar, pólitík og allur pakkinn.“