Kristján Kristjánsson, einn af okkar merkari heimspekingum, er sextugur í dag. Hann fæddist 25. júlí 1959 í Hveragerði, sonur skáldsins Kristjáns frá Djúpalæk og Unnar Friðbjarnardóttur frá Staðartungu í Hörgárdal.

Brosandi segir Kristján að aldurinn leggist ekkert sérstaklega vel í sig. „Ég skil vel Woody Allen þegar hann sagðist vilja verða ódauðlegur í alvörunni en ekki bara í verkum sínum,“ segir hann.

Námsferill

Eftir nám við Menntaskólann á Akureyri lauk Kristján BA-gráðu í heimspeki og þýsku frá Háskóla Íslands árið 1983, hlaut kennararéttindi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1986, lauk M.Phil.-prófi í heimspeki við St. Andrews-háskóla í Skotlandi árið 1988 og doktorsprófi við sama skóla árið 1990.

Kristján kenndi við Háskólann á Akureyri frá 1991 til ársloka 2007 þegar hann tók við nýrri stöðu prófessors í heimspeki menntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann tók síðan við stöðu prófessors við Háskólann í Birmingham árið 2012 og starfar nú þar við Jubilee-stofnunina. Þar er unnið að fjölbreyttum rannsóknum á siðferðisþroska og tilraunum í mannkostamenntun, einkum fyrir breska skólakerfið, en einnig að ráðgjafarverkefnum fyrir menntamálaráðuneyti víða um heim.

Fræðimaðurinn …

Doktor Kristján er afkastamikill fræðimaður. Hann hefur gefið út þrjár bækur um menntaheimspeki í Bretlandi á síðastliðnum sex árum. Sú nýjasta, um farsæld sem markmið menntunar (Flourishing as the Aim of Education), kom út fyrir nokkrum dögum. Alls hefur Kristján gefið út þrjú ritgerðasöfn á íslensku og átta bækur á ensku. Eftir hann liggja á annað hundrað ritrýndra fræðigreina í þekktum alþjóðlegum tímaritum á sviði heimspeki, menntunar, sálfræði og heilbrigðisvísinda.

Við Jubilee-stofnunina, þar sem hann er aðstoðarforstjóri, vinnur Kristján að fjölbreyttum rannsóknum á siðferðisþroska og tilraunum í mannkostamenntun. Þar starfa á þriðja tug heimspekinga, félagsfræðinga, sálfræðinga og menntunarfræðinga við rannsóknir á sviði mannkostamenntunar.

Kristján segist reyna að sannfæra hagnýtt-þenkjandi fólk í stjórnmála- og atvinnulífinu um nauðsyn þess að byggja upp siðferðilegar dyggðir. Í anda heimspekingsins Aristótelesar leiði dyggðugt líferni til farsæls lífs. „Við þurfum ekki endilega að kenna krökkum að gera frábæra hluti, því það geta ekki allir unnið Ólympíugull eða Nóbelsverðlaun, en við getum kennt þeim að gera hversdagslega hluti frábærlega vel.“

Hann segir að rétt eins og einstaklingum sé gott að staldra við og velta fyrir sér hvert líf þeirra stefnir, sé hollt fyrir skólamenn og skólakerfið að spyrja grundvallarspurninga um hver séu hin hinstu rök og æðsti tilgangur menntunar. „Vitaskuld hefur menntun notagildi fyrir framtíðarstörf og lifibrauð, en við megum ekki gleyma því að menntun hefur líka sjálfgildi,“ segir Kristján. „Sama gildir um mannkosti eins og þakklæti eða góðvild. Við viljum að fólk sé þakklátt og góðviljað þegar við á, ekki bara vegna notagildis fyrir samfélagið.“

Á Íslandi virðist samhljómur meðal skólamanna um að megintilgangur náms sé þroski í víðum skilningi, en spyrja þarf hvort ekki þurfi að fylgja þessum gildum betur en aðeins í orði kveðnu. „Er alvara að baki orðunum?“ spyr Kristján.

Fjölskyldan

Eiginkona Kristjáns er Nora Tsai listfræðingur og sonur hans er Hlér Kristjánsson, doktorsnemi í skammtaeðlisfræði við Oxford.

Hver eru áhugamálin?

„Ég á erfitt með að skilja milli áhugamála og vinnunnar. Ætli ég skemmti mér ekki best þegar einhver hlustar af athygli á það sem ég hef að segja á fundi eða ráðstefnu og segist hafa lært eitthvað af því.“

Ertu ekki á heimleið?

„Gildir ekki bara gamli frasinn um að hver vegur að heiman sé vegurinn heim?“

Á að gera eitthvað í tilefni dagsins?

„Ég held upp á afmælið seinna. Ég þarf að klára fræðilega ritgerð í dag. Ég er vinnualki – og það er ekki endilega mannkostur! Ég þarf að læra meira af sjálfum mér …, “ segir afmælisbarnið sposkt.