Kristín Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík þann 1. desember 1932. Hún andaðist þann 9. júní síðastliðinn á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík. Kristín ólst upp í Skerjafirði og bjó þar til ársins 1954. Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundsson, sjómaður og bóndi, f. 20.9.1870 að Lambadal í Dýrafirði en bjó lengst af á Dvergasteini í Álftafirði við Súðavík, d. 27.5.1960 og Ingveldur Jóhannsdóttir, f. 4.10.1891 á Efri- Arnarstöðum í Helgafellssveit, húsmóðir í Reykjavík, d. 3.10.1986. 

Alsystir Kristínar er Fjóla Kristrún Magnúsdóttur, f.1934. Systur Kristínar sammæðra voru þær Guðfinna Guðnadóttir (1920-2013) og Theódóra Guðnadóttir (1921-2010). Samfeðra voru systkini hennar Rögnvaldína Hjaltlína Kristín Magnúsdóttir (1900-1924), Guðmunda Guðfinna Magnúsdóttir (1902-1974), Jón Valgeir Magnússon (1905-1951) og  Auðun Magnússon (1908-1998).

Kristín var tvígift. Fyrri maður hennar var Russell MacArthur (1922-1988). Þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Inga Barbara Arthur, f. 14.8.1955, maki Gunnar Rúnar Oddgeirsson, f. 4.11.1954. Börn þeirra eru: a) Diðrik Örn, f. 30.7.1978, b) Andri Rúnar, f. 07.07.1987, c) Viktoría Lind, f. 9.8.1996. Barnabörn Ingu og Gunnars eru: Ísak Leó Diðriksson, f. 17.5.2001, Emilía Diðriksdóttir, f. 15.6.2007, Alexander Rúnar Andrason, f. 1.9.2010 og Ísabella Lena Andradóttir, f. 19.10.2015. 2) Linda Lou Arthur, f. 28.10.1956, maki Stefán Stefánsson, f. 27.8.1953. Börn þeirra eru: a) Kristinn Arnar, f. 10.2.1974, d. 8.3.2016, b) Telma Lind, f. 28.3.1977. Barnabörn Lindu og Stefáns eru: Nói Stefán Þorsteinsson, f. 16.9.2014 og Sigurður Arnar Kristinsson, f. 28.2.2016.

Seinni maður Kristínar var Ingólfur Eggertsson, fæddur í Reykjavík þann 16.11.1929, d. 9.5.2001. Foreldrar hans voru Eggert Bjarnason vélstjóri, f. 6. ágúst 1887 að Björgum á Skagaströnd í Austur-Húnavatnssýslu, d. 2. október 1966, og kona hans Ólafía Þóra Jónsdóttir, f. 21. október 1892 í Reykjavík, d. 9. október 1955. Sonur Kristínar og Ingólfs er Eggert Magnús, f. 5.12.1970, maki Margrét Þuríður Sverrisdóttir, f. 27.12.1973. Börn Eggerts eru Hildur Högna, f. 25.9.2002 og Sunneva Sól, f. 9.10.2004.
Útför Kristínar  fer fram fimmtudaginn þann 21. júní frá Fella- og Hólakirkju kl. 15. 

------------------------

Elsku amma Stína, það er sár tilfinning sem fylgir því að hugsa til þess að við munum ekki fá að sjá þig aftur. Er ég heimsótti ömmu nú í byrjun júní og heilsa hennar hafði versnað hratt á stuttum tíma, var hún samt að spyrjast fyrir um hvernig langömmubörnin hennar og móðir þeirra hefðu það. Það að hún var að spyrjast fyrir um fjölskyldu mína á sínum erfiðustu stundum sýnir hversu hugulsöm manneskja hún amma Stína var. 

Minnisstæðar eru einnig notalegu stundirnar sem við áttum saman er ég var lítill strákur að gista hjá ömmu. Amma var ávallt búin að útbúa uppáhaldið mitt sem var kakósúpan góða með bruðum. Einnig sátum við oft  klukkustundunum saman við eldhúsborðið og amma lagði hvern kapalinn eftir annan og ég perlaði hvert perlulistaverkið eftir annað með hjálp hennar. 

Það var alltaf ævintýri að fara með ömmu Stínu í sumarbústaðinn og þar leið henni vel.  Margar veiðiferðirnar fórum við í og nutum þess að veiða í kyrrðinni enda var veiði í miklu dálæti hjá henni ömmu. Svo var  spilað fram á kvöld er heim var komið í bústaðinn. Amma naut sín mjög úti í náttúrunni og erum við mjög þakklát fyrir stundirnar sem ég átti með henni þar. 
Munum við alltaf hugsa hlýlega til hennar ömmu Stínu okkar og munu langömmubörnin hennar sem voru við hlið hennar þegar hún kvaddi þennan heim, fá að vita að þau áttu mjög ástríka og hlýlega langömmu. Erum við systkinin mjög þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman með ömmu Stínu og munu þær minningar lifa áfram í hjörtum okkar.

LÍTIL KVEÐJA.
Þeir segja mig látna, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.
Frá litlu hjarta berst lítil rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem að mun ykkur gleðja.
(Höf óþ.)
Andri Rúnar og Viktoría Lind

------------------------

Elsku amma mín nú ert þú farin frá okkur. Mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum og þakka þér fyrir allan þann tíma sem við höfum átt saman. Það sem fær mig til þess að brosa mest er tíminn sem þú og Nói Stefán, sonur minn, áttuð saman. Þegar ég sagði honum að langamma væri farin þá sagði þessi elska: „mamma er langamma farin til tunglsins til Adda frænda? Ég elska Adda og langömmu svo mikið, ég er leiður.“ Ég veit að Addi bróðir er að passa vel upp á þig núna enda mikill ömmustrákur.

Eitt vil ég biðja ykkur um, verndið Nóa Stefán í hans erfiðu veikindum, sendið honum ljós og orku. Verið hans verndarenglar.

Bless elsku amma 

Telma Lind Stefánsdóttir

Verndarengill

Lítill engill á öxlinni
Lítur yfir 
Og gætir þín

Engin hætta 
Bara trúa
Trúðu á mig

Ég vaki
Vertu sterk 
Haltu áfram 

Ekki gefast upp
Þú kemur aftur
Sterkari en áður

Rannveig Iðunn
1987-