Kristín Kristinsdóttir fæddist 7. febrúar 1937 á Eyri á Arnarstapa í Breiðuvík. Hún lést 25. september á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Foreldrar hennar voru Kristinn Sigmundsson og Karólína Kolbeinsdóttir. Systkini hennar: Erna, Ella Kolbrún, Stefán Smári (látinn 1962), Pálína, Kolbeinn, Margrét, og Lára.

Hinn 31. desember 1963 giftist Kristín, Kristóferi Guðmundssyni fæddur 19. ágúst 1928 frá Litla Kambi í Breiðuvík. Hann lést 23. desember 1999.

Synir þeirra eru: 1) Svanur, f. 29. júlí 1961, maki Guðrún Kjartansdóttir, börn þeirra eru a) Kristófer sambýliskona Íris Aníta Björnsdóttir, börn þeirra eru Lúkas Alexander, Ísabella Lára og Ólíver Emilían, b) Kristín Anna sambýlismaður Vidar André Iversen, synir þeirra eru Christian Smári og Benjamín Leander, c) Reynir Smári sambýliskona María Lunde, d) Dýrleif Lára sambýlismaður Haris Orucevic. 2) Stefán Smári, f. 31. maí 1963, maki Hrefna Rut Kristjánsdóttir, börn þeirra eru Steinunn og Vignir Snær. 3) Kristinn, f. 6. maí 1967 maki Auður Sigurjónsdóttir, börn þeirra eru Sigurjón, Kristín og Kári Steinn.

Kristín ólst upp á Arnarstapa í Breiðuvík. Árið 1957 var hún við nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Kristín fluttist ásamt foreldrum sínum til Ólafsvíkur 1958. Hún starfaði í Kaupfélaginu Dagsbrún og fiskvinnslunni Bakka. Kristín var forstöðukona leikskólans í Ólafsvík í mörg ár og endaði sinn starfsferil sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla Snæfellsbæjar. Kristín var virk í félagsstörfum eldriborgara í Ólafsvík og var gjaldkeri þeirra í mörg ár.
Þegar við syst­kinin sitjum hérna í eld­húsinu á Ennis­brautinni og skrifum þessar línur er erfitt að átta sig á því að hún amma sé farin. Margar skemmti­legar minningar eigum við frá Ólafs­víkinni. Þar var alltaf nóg að gera og okkur leiddist aldrei. Kristófer var náttúru­lega stór­bóndi sem átti allan bú­skapinn með ömmu og afa. Það var alltaf gaman að fara í fjár­húsin og að Sveins­stöðum að heyja en amma var ekkert rosa­lega glöð þegar afi leyfði okkur að sitja ofan á hey­vagninum. Senni­lega er það eina skiptið sem við munum eftir ömmu reiðri. Jú, hún skammaði okkur líka ef hrífan var lögð vit­laust niður því þá gat komið rigning. Ömmu var ekkert vel við að Kristín Anna væri að vesenast í hestunum, en það var í lagi að vesenast í rollunum. Reynir Smári fékk að fara um allt í húsunum og gera það sem hann vildi. Dýr­leif Lára sat oftast á hey­rúllu og fylgdist með. Það var ekkert verra að koma á Ennis­brautina í kaffið eftir að hafa verið í húsunum. Amma bakaði bestu pönnu­kökur og tertur í heimi. Við munum líka hversu auð­velt var að biðja ömmu um að kenna okkur línu­dans og spila­mennsku.

Amma Stína var alltaf fljót að svara fyrir sig, hún var fyndin og kom með skemmti­legar at­huga­semdir. Hún var ekkert að fara í kring um hlutina, hún sagði það bara eins og það var. Við erum búin að hlæja mikið saman. Það var alltaf stutt í prakkara­skapinn og hún var alltaf til í sprell.

Fyrir 21 ári síðan fluttum við til Noregs. Amma kom í heim­sókn á hverju sumri. Hún er búin að keyra um landið í marga tíma til að hitta barna - og lang­ömmu­börnin sín. Við hittumst líka oft í hyttunni og nutum þess að vera saman, spjalla og spila Kana á kvöldin. Við erum líka búin að ferðast með ömmu til út­landa. Ekki var erfitt að biðja hana um að koma með í skemmti­garða, og þá stóð hún ekki og horfði á okkur. Hún skellti sér með í alla rússí­bana og skemmti­legast þótti henni að fara í vatns­renni­brautir. Amma var líka alltaf til í að sulla í sjónum og var sem oftast fyrst út í. Við munum vel eftir henni fljótandi á stórum kút úti í sjó, bæði á Spáni og í Dan­mörku.

Amma hafði alltaf á­hyggjur af því hvort okkur væri kalt. Þegar leið að hausti og við spjölluðum við ömmu í símanum þurftum við ekki að nefna það nema einu sinni að það vantaði sokka og vettlinga og þá var kominn póstur. Hún er búin að reyna að kenna okkur stelpunum að prjóna, hekla og Bucillast oft. Núna loksins erum við orðnar nógu full­orðnar til að kunna það. Ef við systurnar verðum bara næstum því jafn góðar og amma verðum við mjög sáttar.

Tíminn sem við og lang­ömmu­börnin fengu með ömmu í sumar er ó­gleyman­legur. Lang­ömmu­börnin hafa talað mikið um hvað það var skemmti­legur tími. Fyrir þau var alltaf spennandi að opna af­mælis -og jóla­pakka frá ömmu. Þau voru svo stolt að sýna það sem amma Stína hafði gert handa þeim. Lang­ömmu­börnin elskuðu að tala og leika við ömmu Stínu á ”facetime” og þar voru ekki fáar stundir.

Hvíl í friði elsku amma, minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar.