Kristín Hólmfríður Tryggvadóttir, fv. skólastjóri og kennari var fædd á Dalvík 14. ágúst 1936. Hún tók stúdentspróf frá MA árið 1954; lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla íslands 1955 og í forspjallsvísindum frá HÍ sama ár, og nám í námsefnisgerð við Berkeley háskóla árið 1974. Hún tók þátt í fjölda námskeiða hérlendis og erlendis í kennslufræðum, námsefnisgerð og skólastjórnun. Kristín var kennari við Skóla Ísaks Jónssonar 1955-56; Flataskóla 1958-59; Lækjarskóla 1959-61 og við Öldutúnsskóla 1961-78.

Hún var námsstjóri í samfélagsfræði við skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins 1975-76. Hún samdi og endurskoðaði námsefni hjá menntamálaráðuneytinu 1972-80; var fræðslufulltrúi BSRB 1978-83; var deildarstjóri á fræðsluskrifstofu Reykjaness 1984-86; var við dagskrárgerð hjá RÚV 1980-86 og skólastjóri í Selásskóla frá 1986-96. Kristín var formaður Félags barnakennara á Reykjanesi 1972-76; í stjórn Sambands íslenskra barnakennara og síðar Sambandi grunnskólakennara 1974-80; í stjórn Kennarasambands íslands og fyrsti formaður skólamálaráðs 1980-82. Kristín var í stjórn BSRB 1976-82; í stjórn Bréfaskólans 1978-83; í framkvæmdaráði Stjórnunarfélagsins 1981-82 og fulltrúi í samráðsnefnd BSRB við ríkisstjórnina 1978-82, formaður kjaranefndar Félags skólastjóra og yfirkennara 1988-90 og varaformaður sama félags frá 1990.

Kristín var varaþingmaður Alþýðuflokksins 1983-86; fulltrúi Alþýðuflokksins á þingi SÞ í New York 1983.

Ritstörf Kristínar: Námsbækur í samfélagsfræði fyrir grunnskólanemendur; handbækur fyrir kennara, ítarefni og vinnublöð í samfélagsfræði í samvinnu við starfshóp; þýðingar á barnabókum, m.a. fyrir Bókaútgáfuna Sögu og umsjón með útgáfum á vegum BSRB, s.s. Handbók BSRB, Hvað er vísitala? og Vinnustaðurinn í brennidepli.

Síðustu ár hefur Kristín dvalið á Hrafnistu í Hafnarfirði en þrátt fyrir erfiðan gigtarsjúkdóm í fingrum og fótum, ritaði hún fjölda greina til birtingar í dagblöðum og opin bréf til ráðherra um stöðu aldraðra á dvalar og hjúkrunarheimilum.

Kristín var gift Hauki Helgasyni, f. 24.7.1933, skólastjóra. Börn þeirra eru Helgi Jóhann, f. 11.12. 1956, kennari, stjórnmálafræðingu og ljósmyndari, giftur Heiðu Hafdísar dóttur og eiga þau 4 börn og 3 barnabörn; Unnur Aðalbjörg, f. 10.7. 1958, verkakona, fv. eiginmaður hennar er Hjörtur Wium Vilhjálmsson og eiga þau saman 3 dætur og 7 barnabörn, og Alda Margrét, f. 18.2. 1963, formaður Félags lífeindafræðinga maður hennar er Grettir Sigurjónsson og eiga þau 5 börn og 3 barnabörn.

Haukur og Kristín skildu árið 1985. Um tíma eftir það var hún í sambúð með Birni Árnasyni bæjarverkfræðingi.

Foreldrar Kristínar voru Tryggvi Kristinn Jónsson, f. 3.11. 1906, d. 20.12. 1991, frystihússtjóri á Dalvík og Jórunn Jóhannsdóttir, f. 8.8. 1906, d. 13.12. 1990, húsmóðir. Hálfbróðir Kristínar samfeðra er Ragnar, f. 8.9. 1932. Albróðir Kristínar er Jóhann, f. 11.12.1938, fv flugstjóri.