Kristín Einarsdóttir

Fædd 1. maí 194

Látin 1. maí 2019

Jarðsungin úr Hallgrímskirkju þriðjudaginn 14. maí, klukkan 13.

Amma vakti yfir velferð fjölskyldu sinnar. Við vorum henni allt. Hún var örlát á visku og væntumþykju því hún vissi að hamingjan er hverful og lífið óútreiknanlegt. Úr áföllum mótaði hún dýrmæta reynslu og spann sér sitt líf sjálf.

Amma var ung þegar hún missti föður sinn og móðir hennar veiktist. Lífið kenndi henni að vera þolimóð, þrautseig og sjálfstæð — að gefast aldrei upp. Hún öðlaðist mikla samkennd og átti auðvelt með að setja sig í spor annara. Amma var óvenju gjafmild, sérstaklega við þá sem minna máttu sín. Fátt gladdi ömmu meira en að getað hjálpað.

Hamingjuna fann amma í Kaupfélaginu á Selfossi. Þar kynntist hún afa Bjarna. Hún innrætti okkur barnabörnunum mikilvægi þess að velja góðan lífsförunaut, höfuðmáli skipti að förunauturinn kynni vel til verka og væri örlátur.

Ömmu var annt um að búa barnabörn sín undir lífið. Í skírnargjöf gaf hún okkur skuldabréf og sálmabækur og í fermingargjöf biblíur og gjaldeyrisreikninga. Hún kenndi okkur að betra er að gefa en að þiggja, að fyrirgefa er dyggð og að forðast óþarfa árekstra. Amma trúði á kærleik, hún umvafði okkur ótæmandi ást og umhyggju.

Þegar ég veiktist leitaði ég í hennar viskubrunn. Eins og amma var ég send í einangrun og erfiða meðferð burt frá mínum börnum. Stundum þegar ég var alveg að gefast upp minnti ég sjálfa mig á að amma var aðskilin börnum sínum í hátt í þrjú ár, mínir fjórir mánuðir væru ekkert miðað við það.

Amma var 37 ára þegar hún missti Bjarna, sinn lífsförunaut.

Hún sagði oft:

Forlög koma ofan að,

örlög kringum sveima,

álögin úr ugga stað,

ólög vakna heima.

Ekki var annað í boði en að vera úrræðagóð og virkja sorgina. Hún sá fyrir grósku í ferðaþjónustu, opnaði eitt fyrsta gistiheimilið í Reykjavík og settist á skólabekk bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum til að læra ensku, málið sem tengdi heiminn og hana betur við gestina sem heimsóttu Ísland.

Það var okkar gæfa að amma kynntist Helga sem gekk okkur í afa stað. Amma og afi voru bæði fróðleikfús, forvitin og fyndin. Þau fylgdust vel með og voru umkringd fjölskyldu og vinum alla tíð.

Á gistiheimilinu sýndi amma okkur hvað hlýtt viðmót gæti skipt sköpum og listina að gefa af sér og tengjast fólki. Það var alltaf fullt hús á Flókó og í tvo áratugi var hún iðulega með barnabörn í vinnu, gistiheimilið varð sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Við lærðum góða vinnusiði, amma fagnaði okkur með opnum faðmi, hvatti okkur óspart og við fórum aldrei heim frá henni svöng.

Amma vann verk sín í hljóði, stóð við orð sín og það var alltaf hægt að stóla á hana. Amma var trygg vinkona, frábær fyrirmynd og ég er henni ævinlega þakklát.