Hún Ninna mín, blessunin, er dáin, fyrrum tengdamóðir og amma barnanna minna Herthu Kristínar, Gísla Jóns og Stefaníu Agnesar. Yndisleg kona og góð amma. Hún var orðin 85 ára gömul en þegar hún kvaddi okkur nú í september þá virtist hún nokkuð sátt. Við fæðumst, göngum í gegnum lífið með öllum þeim sigrum og sorgum sem það býður okkur upp á og þegar að kveðjustund kemur er það svo mikil blessun þegar fólk er sátt við þá stund.

Það eru um 19 ár síðan ég kynntist Ninnu, þegar við Benni yngsti sonur hennar tókum saman. Hún kom mér fyrir sjónir sem kona sem hafði reynt margt en á þessum tíma var hún einnig í sorg,  enda ekki svo langt síðan hún hafði þá misst manninn sinn, Gísla heitinn.  Það var svo greinilegt á öllu hversu mikil sorg hennar var. Ég hugsa stundum til baka til þessara fyrstu kynna minna af Ninnu og hvað það hefur verið hennar happ í lífinu að eiga góðan mann. Hjónabandið hafði verið sterkt og barnalánið mikið. Eftir því sem árin liðu fann hún gleðina á ný og hún var þakklát fyrir það sem hún hafði átt. Nú eru þau sameinuð á ný og fyrir það getum við verið þakklát og ylgt okkur við minningarnar um allt það sem hún gaf á sinni góðu og löngu ævi.

Ninna var hætt að vinna á þessum árum og við Benni nutum því góðs af því þegar börnin fæddust hvert af öðru og oft veitti okkur ekki af aukahöndum á heimilinu. Krakkarnir hugsa með hlýju til ömmu Ninnu, bananabrauðsins, brauðbollanna sem hún bakaði, skötunnar á Þorláksmessu og grjónagrautsins, snúða og vínarbrauðsins sem hún kom með á Borgarholtsbrautina og svo ég tali nú ekki um allan prjónaskapinn.  Ninna prjónaði hverja peysuna á eftir annarri, vettlinga, húfur, grifflur og svo mætti lengi telja.  Það var svo gaman að sjá hversu mikil hannyrðakona hún var og þrátt fyrir gigt i fingrum léku prjónarnir í höndum hennar. Svo voru það ófáar sögurnar sem hún sagði, frá lífinu fyrir vestan, af afa Gísla og svo ekki síst af Benna og bræðrum hans þegar þeir voru litlir. Og hún svo dekraði hún við og knúsaði Emmu köttinn okkar enda Siamsköttur eins og hann Skjási hennar.

Nú síðustu árin höfum við Ninna hist minna, en við áttum þó alltaf okkar stundir. Undir það síðasta fór hún ekki svo mikið að heiman en ég talaði reglulega við hana í síma og það var skotist í kaffi. Það var einnig orðin venja hjá okkur Ninnu að fara saman og kaupa jólagjafir fyrir krakkana. Alltaf var það yndisleg stund, sem við áttum, skoðuðum í búðir og tókum okkur svo góðan tíma í spjall á kaffihúsi. Elsku Ninna, ég mun sakna þessara stunda okkar.

Ég og börnin þökkum ömmu Ninnu fyrir alla gæskuna og góðmennskuna og kveðjum með sálmi ortum af afa mínum, Sr Gunnari Árnasyni, presti frá Skútustöðum

Vor sál er himnesk harpa
helgum guði frá,
vér lifum til að læra
að leika hana á.
En þá sem ljúfast leika
þau lög sem Drottinn ann
við komu dauðans kallar
í kóra sína hann. 

(G.Á.)

Haustsólin skín og umvefur minningarnar og þá sem eftir lifa. Ég kveð Ninnu með þakklæti efst í huga.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir