Útihátíðargestir, sem urðu munaðarlausir eftir takmarkanir sumarsins, geta tekið gleði sína á ný því bjórhátíðin Af því bara hófst í Borgarnesi í gærkvöldi og stendur yfir um helgina. Þessi sjálfskipaða síðasta útihátíð sumarsins er samvinnuverkefni BARA – Ölstofu lýðveldisins, þar sem hátíðin fer fram, og netverslunarinnar Bjórlands.

„Við höfum verið í sambandi um nokkurt skeið og átt ánægjulegt samstarf,“ segir Þórgnýr Thoroddssen, annar eigandi Bjórlands. „Þeirra hugmynd er að vera eingöngu með bjór frá litlu brugghúsunum og þeim datt í hug að halda sambærilega bjórhátíð og við vorum með á KEX í vor. Það er auðvitað fátt skemmtilegra en að halda hátíð.“

Þórgnýr segir að boðið verði upp á bjór á átta til níu krönum, sem eru fleiri kranar en hafa sést í héraðinu áður. Sértækari bjórar verða á flöskum og dósum fyrir ævintýragjarnari gesti. „Það verður svo ýmislegt í gangi þarna, tónlist, matur og annað,“ segir Þórgnýr. „Í dag verður svo haldið héraðsmeistaramót í hnífur-skæri-blað, svo það verður til mikils að vinna!“

Þótt hátíðin hafi ekki verið hugsuð sem íslensk útgáfa af Októberfest segir Þórgnýr að það lýsi henni ágætlega. „Í mínum vinahóp forðum daga var það alltaf þannig að síðasta útipartí ársins var haldið í október, svo mér fannst það liggja vel við höggi að halda hana á þessum tíma.“

Gorkúlur byltingarinnar

Mikil endurreisn hefur átt sér stað í bjórmenningu Íslendinga á undanförnum árum og segir Þórgnýr að ný brugghús spretti upp eins og gorkúlur. „Maður heyrir af nýju bruggverkefni mánaðarlega,“ segir hann. „Sum þeirra eru innanhúss-brugghús eins og Drengsson á Vogum á Vatnsleysuströnd, önnur eru minni háttar brugghús eins og 6a á Akureyri, sem er að brugga í 100 lítra upplagi. Þetta eru allt brugghús sem eru að brugga stórkostlega stóra bjóra, en þau þurfa ekki að verða það stór til að ná nokkurri dreifingu.“

Eins og svo margar aðrar breytingar á Íslandi segir Þórgnýr að endurreisnina megi rekja til Bandaríkjanna.

„Þetta er hluti af þessari craft-byltingu sem átti sér stað þegar Kaninn ákvað að fara að brugga meiri bjór að sínu skapi með amerískum humlum. Þá varð þessi handverksbrugghúsa-sena til,“ útskýrir hann. „Þar sem Ísland er smá afdalur í veröldinni þá fór þetta aðeins seinna af stað hjá okkur en er komið á fullt flug núna.“

Upphafið á bruggbyltingu landans er venjulega miðað við stofnun Kalda brugghúss, en á fimmtán árum eru þau orðin á þriðja tug.

„Það er full vinna að fylgjast með þessu, sem er kannski sú þjónusta sem við hjá Bjórlandi erum að bjóða upp á,“ segir Þórgnýr. „Við erum með yfirsýn og tengingar og getum skaffað þá yfirsýn sem veitingastaðir þurfa að hafa yfir úrvalið hjá sér.“ ■