Þetta er engin truflun, ég er bara að slaka á hér í góða veðrinu,“ segir Ólafur Kvaran listfræðingur þegar hann svarar símanum, staddur á útikaffihúsi á Tenerife og er beðinn forláts á ónæðinu.

Ólafur fagnar sjötugsafmæli sínu í dag og kveðst vera sprækur, þrátt fyrir hækkandi aldur. „Eftir því sem fjölskyldan segir mér er ég bara í mjög góðu formi,“ segir hann glaðlega. Inntur eftir hvort hann þakki það einhverju sérstöku svarar hann: „Ja, fyrst og fremst góðri heilsu og genum en líka hollu líferni og áhugaverðu starfi. Það eru margir þættir sem tvinnast saman og skapa góðan aldur. En það er ástæða líka til að taka fram að ég er að láta af störfum sem prófessor við Háskólann, það fylgir með þegar maður verður sjötugur, þannig að það hefur legið í loftinu lengi.“

Hann segir marga sem vinna við Háskólann stunda rannsóknir meðfram kennslunni. „Ég var einmitt að gefa út bók um Einar Jónsson myndhöggvara. Svona tvinnast saman vinna og áhugamál. Ég býst við að ég haldi rannsóknum eitthvað áfram og þá á eigin vegum, get unnið að þeim hvar sem er. Þarf náttúrlega að komast á góð bókasöfn og þau eru víðs vegar í heiminum en mínar rannsóknir hafa fyrst og fremst beinst að íslenskri listasögu. Það voru tímamót þegar við gáfum út Íslensku listasöguna 2011, hún opnaði mörg svið sem ég og fleiri erum að fylgja eftir.“

Áhugi fólks á listasögu er mikill, það sýnir fjöldi nemenda í greininni, bæði í háskóla og á framhaldsskólastiginu, að mati Ólafs. „Aðsókn að listasöfnum er líka góð, enda er mikilvæga myndlistin að takast á við mikilvæg málefni á öllum tímum, það er nokkuð sem listasagan sýnir ljóslega.“

Ólafur segir Önnu Soffíu Gunnarsdóttur, konu sína, skipuleggja afmælisgleðina. „Ég veit ekkert hvað hún ætlar að bralla og bíð þess með mikilli eftirvæntingu, en örvænti alls ekki því ég veit að henni dettur eitthvað spennandi í hug.“

gun@frettabladid.is