Líra er hljóðfæri sem hefur einstakan hljóm og nú ætla ég að gefa út fyrsta íslenska lírudiskinn,“ segir Inga Björk Ingadóttir músíkmeðferðarfræðingur sem skapar tónlist fyrir líru og söngrödd. Hún rekur meðferðarstofuna Hljómu í Hafnarfirði og segir tónlistina ná vel til skjólstæðinga sinna. „Líran nær strax eyrum barna. Fullorðnir tengja líka vel við tónlistina mína, enda er ég að syngja um allt sem tilverunni viðkemur. Ég tel að hún eigi erindi við fólk á öllum aldri og í hvaða aðstæðum sem er. Hún er á vissan hátt róandi en líka taktföst á köflum.“

Líran á rætur að rekja langt aftur fyrir Krists burð að sögn Ingu Bjarkar. „Á fornri fresku sést guðinn Appoló spila á einfalt form af líru, þær voru líka notaðar af trúbadorum sem sögðu sögur, sungu um lífið og spiluðu undir.“

Inga Björk kveðst hafa kynnst lírunni í Berlín í sínu músíkmeðferðarnámi í Berlín. „Ég kolféll fyrir henni,“ segir hún og tekur fram að hljóðfærið sem hún spili á sé nútíma útgáfa sem hafi verið endurhönnuð í Þýskalandi árið 1926 af hljóðfærasmiðum og músíkþerapistum, með meðferðarsjónarmið í huga. „Tónn lírunnar talar svo beint til fólks. Umfaðmandi er orð sem oft er notað um hljóm hennar, enda finna bæði hlustendur og hljóðfæraleikarar fyrir þeim áhrifum. Ég hef spilað á líru fyrir deyjandi fólk og hef vissu fyrir því að heyrnin er með því síðasta sem fer.“

Lírudiskurinn kemur væntanlega út í lok þessa árs, að sögn Ingu Bjarkar. „Ég er með söfnun í gangi á Karolina Fund, þú mátt alveg koma því að, ef það hæfir en þarft þess ekki,“ segir hún og kveðst trúa því að diskurinn verði áhugaverð viðbót við íslenska tónlistarflóru.