Það er alltaf betra að verða eldri heldur en verða það ekki svo því ber að fagna,“ segir Pétur Eggerz leikari í tilefni sextugsafmælis síns sem var í gær. „Ég hafði átt mér þann draum að vera í útlöndum á afmælinu, af því gat auðvitað ekki orðið en útlönd verða áfram á sínum stað.“

Pétur er kunnur fyrir einleiki sína um Fjalla-Bensa og Eldklerkinn, svo ekki sé minnst á allar barnasýningarnar í Möguleikhúsinu. Spurður út í starfsemi þess leikhúss nú upplýsir hann að þótt þau hjón, hann og Alda Arnardóttir leikari, hafi hætt að halda úti sýningum á vegum þess fyrir fáum árum sé það enn til og gangi nú í endurnýjun lífdaga. „Ég er að vinna í útvarpsleikgerðum tveggja leikrita sem verða gefin út hjá Storytel. Eldklerknum, um sr. Jón Steingrímsson, og Eldbarninu, leikriti fyrir börn og fullorðna. Sigrún Valbergsdóttir leikstýrði báðum á sínum tíma.“

Síðustu ár kveðst Pétur hafa unnið við fararstjórn, eins og fleiri leikarar. „Svo hrundi sá atvinnuvegur í vor og þegar ég heyrði auglýsta styrki til sjálfstæðra leikhúsa datt mér í hug að sækja um styrk til að vinna leikgerð að Eldbarninu fyrir útvarp og fékk, mér til undrunar, smáupphæð,“ segir hann. „Eldklerkurinn er mun einfaldari, þar leik ég einn og vann efnið í samvinnu við Guðna Franzson, höfund tónlistar. Stjúpsonur minn, Kristján Guðjónsson, gerði tónlistina við Eldbarnið.“

Eftir að COVID-19 byrjaði kveðst Pétur hafa verið svo heppinn að fá töluvert að gera í hljóðbókalestri, bæði hjá Storytel og Hljóðbókasafninu. „Það leiddi mig út á þessa útgáfubraut. Ég hef líka verið að ganga frá lítilli barnasögu til útgáfu á Storytel, hún byggir á leikritinu Jólaævintýri Trítiltopps og fjallar um tröllastrák. Það var frumsýnt 1994 í Möguleikhúsinu og var naglfast þar. Ég skrifaði sögu upp úr því á sínum tíma og gleymdi henni ofan í skúffu. Kófið kennir manni margt, meðal annars að nýta hlutina.“