Þann 5. ágúst árið 1949 hittust nokkrir félagar í gömlum herbragga við Grímsstaðavör við Ægissíðuna og stofnuðu Knattspyrnufélagið Þrótt. Meðal stofnenda félagsins voru Halldór Sigurðsson kaupmaður sem var fyrsti formaður þess og Eyjólfur Jónsson sem þekktastur var fyrir mikil afrek í sundi.

Finnbogi Hilmarsson, núverandi formaður félagsins, segir að knattspyrna hafi frá upphafi verið fyrirferðarmikil hjá félaginu. „Að auki áttum við Þróttarar bestu blaklið landsins um langt árabil og um tíma eitt besta handboltalið landsins sem meðal annars fór alla leið í undanúrslit í Evrópubikarkeppninni, auk fleiri greina,“ segir hann stoltur. Félagið var starfrækt í vesturbæ Reykjavíkur allt til ársins 1969 þegar því úthlutað svæði við Sæviðarsund. „Við búum við það, eitt íþróttafélaga í Reykjavík, að hafa flutt aðsetur tvisvar frá stofnun,“ segir formaðurinn. Árið 1998 var félaginu loks formlega veitt svæði í Laugardalnum þar sem það hefur aðsetur í dag.

Aðstöðuleysi háir félaginu

Aðspurður um aðstöðu félagsins segir hann að aðstöðuleysi hafi háð félaginu í áratugi. „Því miður hefur ekki verið staðið við mörg gefin loforð um meiri og betri aðgang að Laugardalshöllinni sem á að þjóna innigreinum okkar. Þegar skoðaður er aðbúnaður í samanburði við önnur hverfisíþróttafélög í Reykjavík hefur Þróttur setið eftir. Öll hafa þau eigið íþróttahús og sum jafnvel fleiri og hið sama á við um gervigrasvelli,“ segir Finnbogi og undirstrikar að það sé hlutverk kjörinna borgarfulltrúa að jafna strax út þennan mismun milli borgarhluta. „Öll börn í Reykjavík eiga að hafa sama rétt og aðstöðu til að stunda íþróttir, ekki síst á tímum þar sem tími með snjalltækjum er víða mikið vandamál,“ segir hann. Þróttarar eru í viðræðum við Reykjavíkurborg um bætta aðstöðu. „Við Þróttarar erum að gera okkur vonir um að félagið fái nýtt íþróttahús til eigin nota og að minnsta kosti tvo nýja gervigrasvelli á Valbjarnarsvæðið. Niðurstöðu er að vænta á haustmánuðum.“

Stærsta knattspyrnudeildin

Knattspyrnudeild Þróttar hefur stækkað mjög síðustu ár og er nú orðin ein sú stærsta í borginni með hátt í þúsund iðkendur. „Við höfum góða sumaraðstöðu fyrir fótboltann, en hún er takmörkuð. Hina mánuðina deila þessir þúsund iðkendur okkar eina gervigrasi. Æfingarnar verða ekki mjög fjölbreyttar þegar hátt í 200 krakkar eru á sama tíma á æfingu inni á grasinu,“ segir hann.

Við stofnun kom fram áhugi á handknattleiksdeild, bæði meðal karla og kvenna. Til hennar var síðan stofnað 1951. „Uppbyggingarstarf er hafið í handboltanum með það að markmiði að þegar félagið fær eigið íþróttahús til umráða verði til staðar öflugir yngri flokkar sem munu stækka og eflast með tilkomu hússins.“

Viðamikil afmælisdagskrá

Það hefur verið í nógu að snúast vegna afmælisins. Í hverri viku hefur verið kynntur Þróttari vikunnar og svo verður áfram út árið.

„Við létum líka endurgera upphaflegt merki félagsins og hafa verið framleiddir fánar, nælur, bollar o.fl. sem gaman er að eiga. Í vor buðum við öllum Þrótturum og íbúum Laugardalsins í afmælisveislu í félagsheimilinu sem tengd var hverfishátíðinni „Laugarnes á ljúfum nótum“. Mikill fjöldi mætti og fagnaði með okkur.“

Í lok sumars verður opnuð glæsileg sögusýning í hátíðarsal félagsins þar sem sýndur verður fjöldi muna, mynda, búninga o.fl. úr sögu þess. Að auki er unnið að heimildarmynd um félagið sem frumsýnd verður í haust.

Knattspyrnuhátíð í september

„Þann 6. september verður síðan mikil knattspyrnuhátíð, þar sem meistaraflokkar okkar mun í fyrsta skipti leika heimaleiki á sama degi. Þar verður boðið upp á mat í tjaldinu, tónlist, yngri flokkar verða heiðraðir og fleira. Daginn eftir er svo glæsileg afmælishátíð í Laugardalshöll þar sem veittar verða viðurkenningar, sýnt sýnishorn úr nýju heimildarmyndinni um félagið og svo auðvitað dansleikur á eftir.“

Formaðurinn segir framtíð Þróttar vera bjarta.

„Við sem erum í forystu félagsins erum sannfærð um að með bættri aðstöðu getum við veitt fleiri börnum í hverfinu tækifæri til að taka þátt í starfinu og í framtíðinni náð enn betri árangri. Við Þróttarar erum með hæft og reynt starfsfólk og góða blöndu af efnilegum og reyndum þjálfurum, segir Finnbogi að lokum.“