Þetta var lágmarksár hvað varðaði keppnir og stórmót en heimamótin fóru fram og sluppu vel,“ segir Bjarni Jónasson hestamaður hógvær, þegar honum er óskað til hamingju með titilinn knapi ársins 2020 sem Skagfirðingur sæmdi hann á dögunum. Hann var tilnefndur til íþróttaknapa, gæðingaknapa og skeiðknapa ársins.

Stærsta afrekið átti sér stað á Hólum í vor þar sem hann og Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli sigruðu fimmganginn með einkunnina 7,88, það er hæsta einkunn sem gefin var í fimmgangsúrslitum á landinu yfir árið. Þetta kemur fram á vef Skagfirðings og Feyki.

Bjarni er vestan af Reykhólum en kveðst hafa búið í mörg ár á Sauðárkróki. „Ég kom í Hólaskóla og leist svo vel á mig hérna að ég settist að. Það er saga margra sem koma í Hólaskóla, þeir ílengjast,“ segir hann og gengst við því að vera hestamaður í húð og hár. „Ég geri ekkert annað.“

Spurður hvort Skagfirðingar fari enn ríðandi milli bæja – syngjandi svarar Bjarni: „Nei, það er búið. Hestamennskunni fylgdi gleði og söngur, ég náði í skottið á þeirri stemningu þegar ég kom fyrst en ef einhverjir höguðu sér þannig í dag þá þættu þeir bara skrítnir. Menningin er allt önnur þó ánægjan sé enn fyrir hendi. Nú snýst þessi grein um atvinnumennsku.“

Sjálfur kveðst Bjarni ekki stór í hrossarækt heldur vinna mikið fyrir aðra við að þjálfa hross, aðallega fyrir kynbótasýningar og keppnir. Aðspurður kveðst hann þó eiga hlut í Hörpu Sjöfn sem hann reið til sigurs á Hólum í vor. „Ég á hana með samstarfsmönnum í Sviss og hún verður hér á landi. Ég er yfirleitt fjóra til fimm mánuði á ári í Sviss, við sölu, kennslu og allt sem við kemur íslenska hestinum. Hef verið í því í 20 ár og vinsældir íslenska hestsins eru alltaf að aukast þar.“

Ef aðstæður í heiminum væru eðlilegar væri Bjarni kominn til Sviss núna, að eigin sögn.

„Ég var að vinna þar í haust og þá var allt opið því Svisslendingar eru svolitlir peningamenn en þegar ég kom heim í byrjun desember þá var COVID-ástandið orðið mjög slæmt,“ lýsir hann og kveðst að sjálfsögðu hafa farið í sóttkví.

Bjarni kann vel við svissnesku þjóðina. „Þetta er traust og gott fólk, seintekið en þegar sambönd eru komin á þá halda þau til eilífðar.“