Hjónin Guðlaug Friðriksdóttir og Ragnar Gylfi Einarsson sýna nú fjölbreytt verk í Listasal Mosfellsbæjar. Aðspurð segir Guðlaug þau yfirleitt fást við listsköpun á hverjum degi. „Það gefur lífinu gildi að hafa eitthvað fyrir stafni og þetta er svo skemmtilegt sem við erum að gera. Ragnar er mest í bókbandinu en ég hef snúið mér meira að málverkinu.“ Hún kveðst aðallega nota olíuliti og þá beint úr túpunum. „Mér er svo illa við aukaefni svo ég blanda ekki mikið.“

Ragnar er af þriðju kynslóð bókbindara og með áhugann í genunum, að sögn Guðlaugar. „Helgi Tryggvason, afi Ragnars, var fagurkeri í bókbandi og Einar sonur hans tók við keflinu, hann var aðalkennari bókbands í Iðnskólanum í mörg ár. Ég dreif mig í nám hjá honum rúmlega fertug og lauk sveinsprófi. Við Ragnar rákum bókbandsstofu en erum komin á aldur,“ segir hún. „Þetta kallast hobbí hjá okkur í dag.“

Þau hjón hafa keppt í bókbandi erlendis og Guðlaug segir þau hjálpast að þegar þau undirbúi slíkar ferðir. „Við höfum komist inn í heiðursflokk og lent í að vinna en þetta er harður heimur, Japanir og Bretar eru svo flinkir,“ segir hún. Viðurkennir þó að þeir skreyti ekki bækur sínar með íslenskum lopapeysum eins og þeim hjónum hugkvæmdist að gera í vor þegar gömul peysa endaði utan á nokkrum bókum.

Þessum bókum ætti ekki að verða kalt þó að þorrinn sýni klærnar.
Til Rómar nefnist þetta nýstárlega verk úr höndum bókbindaranna.
Hér sést óvenjulegur frágangur á fjárlögum íslenska ríkisins.