Hólavallagarður er viðfangsefni listamannsins Þrándar Þórarinssonar sem opnar nýja sýningu í safnaðarheimili Neskirkju næsta sunnudag. Þar verða til sýnis fimmtán málverk sem tengjast kirkjugarðinum með einum eða öðrum hætti.

„Ég bý á Ljósvallagötu og horfi yfir kirkjugarðinn á hverjum degi,“ segir Þrándur. „Mér fannst það ríma ágætlega við kirkjuna að vera með sýningu tengda garðinum. Ég hef mikið verið að mála landslagsmyndir í gegnum tíðina og datt í hug að prófa þetta.“

Hólavallagarður er að mati Þrándar einn af fallegri stöðum borgarinnar.

Börnin og Dauðinn.
Þrándur Þórarinsson

„Miðað við önnur nágrannalönd þá komumst við ekki jafnmikið í snertingu við söguna í nærumhverfi okkar,“ segir hann. „Það var kjörið að hafa þessa vin í borginni sem þema, þar sem sýningin er í safnaðarheimilinu þar sem er mikið um erfidrykkjur og annað.“

Verkin segir Þrándur vera blanda af skáldamyndum úr garðinum annars vegar og hins vegar fólkinu sem hvílir þar.

„Ég kafaði í smá heimildarvinnu fyrir sýninguna og hafði gaman af því,“ segir hann. „Það eru þarna fjórar stórar myndir af Klukknahúsinu sem er fyrir miðju garðsins, ein fyrir hverja árstíð, sem mér fannst viðeigandi í samhengi við hringrás lífsins.“

Krassandi kósíkvöld

Auk sýningarinnar hefur Þrándur einnig verið önnum kafinn við að mála nýtt verk af endurteknu yrkisefni sínu, Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Það koma alltaf ný og ærin tilefni til að mála af honum mynd,“ segir Þrándur spurður hvort hann sé ekki að fara að verða kominn með nóg af Bjarna. „Það er ekki eins og ég sé með hann á heilanum en þegar hann er alltaf að gera eitthvað af sér þá verð ég að gera mér mat úr því og það höfðu allir svo gaman af hinum verkunum.“

Guðrún Odds tekur á móti Þorbjörgu Sveins.
Þrándur Þórarinsson

Á fyrri verkum Þrándar af Bjarna mátti annars vegar sjá fjármálaráðherrann kyssa hringinn á Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og hins vegar klæða sig í nábrók. Myndirnar vöktu mikið umtal og sitt sýndist hverjum. En hvað er Bjarni að gera í nýja verkinu?

„Þetta er kökuboð hjá Bjarna þar sem hann er að skreyta köku eins og í kosningaauglýsingum fyrri daga,“ útskýrir Þrándur. „Nú er þetta Glitnis-kaka og það má sjá Benedikt Sveinsson, pabba hans, að skammta sér af henni. Svo glittir í Hjalta Sigurjón Hauksson, fjölskylduvin þeirra sem Benedikt tók þátt í að veita uppreist æru fyrir kynferðisbrot. Þetta er bara svona kósíkvöld og kökuboð.“

Þá er Þrándur með annað verk í bígerð þar sem má finna formenn stjórnarflokkanna í hlutverki þjófóttu bræðranna Kaspers, Jespers og Jónatans sem gerðu garðinn frægan í Kardemommubænum.

„Ég næ kannski ekki að klára þá mynd strax en hún verður tilbúin fyrir kosningarnar.“