Við erum með ís­lenskt efni og við pössum okkur á að hafa ekki bara tón­list sem enginn hefur heyrt áður. Þar eru þekkt upp­á­halds­lög innan um en í út­setningum fyrir rödd og gítar sem við unnum í sam­einingu,“ segir söng­konan Hlín Péturs­dóttir Behrens söng­kona um efni nýs disks sem væntan­legur er. Hann nefnist Nátt­söngur, þar syngur hún og Ögmundur Þór Jóhannes­son spilar á gítar. Saman kalla þau sig Duo Fjara og eftir tón­leika­ferð um Ís­land síðasta sumar tóku við upp­tökur í nýju og full­komnu hljóð­veri, Stu­dio Silo á Stöðvar­firði.

Sem dæmi um efni á diskinum nefnir Hlín tvær út­gáfur af Sofðu unga ástin mín sem hafa sjaldan heyrst og líka minna þekkt lag við Maí­stjörnuna en það sem allir þekkja eftir Jón Ás­geirs­son. „Hall­dór Kiljan Lax­ness heyrði ein­hvern raula lagið fyrir munni sér, Atli Heimir skrifaði það upp og Hildi­gunnur Rúnars­dóttir út­setti. Svo verð ég að geta þess að haldin var keppni árið 2018 um nýtt lag í til­efni full­veldis Ís­lendinga. Sigur­lagið er á diskinum, það er eftir Jóhann G. Jóhanns­son. Einnig eru tvö önnur sem bárust í keppnina sem mér finnst dá­sam­leg. Annað fékk sér­staka viður­kenningu.“

Ætlað er að diskurinn komi út í lok febrúar, út­gáfu­tón­leikar verði á Stöðvar­firði seinni partinn í mars og litlu síðar í Reykja­vík. Eftir­vinnsla disksins er í fullum gangi, að sögn Hlínar, sem tekur fram að hóp­fjár­mögnun standi til 16. janúar. „Með skráningu á Karolina­fund má festa kaup á staf­rænu niður­hali af diskinum, kaupa einn eða fleiri geisla­diska og miða á út­gáfu­tón­leikana.“