Í fyrsta sinn í sögu HR-ingsins er haldin keppni í Fortnite sem margir kannast við, enda einn mest stækkandi leikur í heiminum í dag og hefur verið í fréttum undanfarna mánuði,“ segir Benjamín Björn Hinriksson, einn af skipuleggjendum HR-ingsins.

HR-ingurinn er stærsta og langlífasta tölvuleikjamót Íslands og fer fram í 12. skipti um næstu helgi.  HR-ingurinn er svokallað LANmót, þar sem fólk kemur með tölvuna sína upp í Háskólann  í Reykjavík yfir helgina 10. til 12. ágúst og spilar tölvuleiki saman. Aðgangsgjald í forsölu er 2.900 krónur. Í ár verða verðlaunin yfir 500.000 kr. og fólk æfir sig yfirleitt mikið fyrir mótið.

„Þetta er mót sem er haldið á vegum Tvíundar, Tölvunarfræðifélags Háskólans í Reykjavík á ári hverju, yfirleitt helgina eftir verslunarmannahelgi og sækja um 300 manns mótið á hverju ári.

Tvíund mun vera með sjoppu í skólanum yfir helgina og er mikið selt af mat þar. Á hverju ári byggist upp hinn frægi pitsu-veggur þar sem töluvert er borðað af Domno’s-pitsu yfir helgina. Í gegnum árin höfum við byggt upp HR-inginn með frábæru fólki sem kemur ár hvert í sjálfboðavinnu, einfaldlega af því hversu skemmtilegt þetta er.

Við fáum einnig flotta aðila til að gefa frábæra vinninga og í ár erum við komin í samstarf við Tölvutek sem ásamt Tvíund ætlar að gefa veglega vinninga til sigurvegara mótanna.“ Benjamín segir að fyrir sjálfboðaliðana sé þetta skemmtilegasta helgi ársins. Það er lítið sofið og frí tekið frá vinnu til að koma og nýta í undirbúning.

„Fyrir okkur er þetta ein skemmtilegasta helgi ársins. Það er gaman að sjá nýja sjálfboðaliða koma á hverju ári sem hafa áhuga á að taka þátt í undirbúningi og umsýslu, en margir þeirra eru núverandi eða útskrifaðir tölvunarfræðinemendur úr HR. Við bjóðum alla velkomna að koma með tölvuna sína til okkar og skemmta sér yfir helgina. Skráning og forsala er opin á vefsíðu okkar, HRingurinn.net,“ segir Benjamín.

[email protected]