„Auðvitað er gleðilegt að fá jákvæð viðbrögð og góðan vitnisburð. Þetta var óvænt ánægja,“ segir söngkonan Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, sem nýverið hélt útskriftartónleika sína við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og hlaut hæstu einkunn.

„Þau voru undarleg þessi tvö ár sem ég hef verið í meistaranáminu, því helminginn af tímanum var stofnunin lokuð,“ lýsir hún. „Mikið var samt gaman að geta haft lokatónleika nú, fjölskyldan mín kom út, það var mjög gleðilegt.“

Þórgunnur kveðst hafa sungið á latínu, grísku, spænsku, ensku, þýsku og frönsku.

„Ég lagði allt í tónleikana og hafði með mér einvalalið hljóðfæraleikara. Hef gaman af að blanda saman ólíkum tónlistarstílum og reyna að skapa úr því eina heild. Í þetta sinn flutti ég ýmis nútímaverk, meðal annars eftir Sofiu Gubaidulinu, kammerverk skrifað fyrir tríóið mitt, KIMA ensemble og verk eftir Arne Mellnäs, sem ég söng án undirleiks og samdi hreyfingar við. Þetta tvinnaði ég saman við síðrómantísk ljóð samin um aldamótin 1900 og barokkaríur. Allt hverfðist þetta um þemað játningar, eða „Confessiones“ sem var yfirskrift tónleikanna.“

Nám í íslensku við Háskóla Íslands hafði sín áhrif á dagskrána, þannig að hún varð dálítið bókmenntatengd, að sögn Þórgunnar.

„Ég fléttaði inn ýmsum tilvitnunum héðan og þaðan, til dæmis úr Predikaranum, pælingum um ástarguðinn Eros og dauðahvatir Freuds. Hafði textana í efnisskránni á ensku en söng á upprunamálunum. Þetta virtist virka vel og prófdómararnir voru hrifnir af þessari heildarmynd. En ég tók smá áhættu með dansinum en fékk jákvæð viðbrögð. Gaman að sjá söngvara nota líkamann líka, þeir mættu gera meira af því,“ sagði einn prófdómarinn.“

Úr sýningunni Dídó og Eneas á vegum Kunstnerkollektivet Venteværelset í Christianiu sumarið 2020. Mynd/Andreas Grønning Poulsen

Þýddi megnið af textunum

Þýðingar á textunum kveðst Þórgunnur hafa séð um sjálf að mestu, en fengið aðstoð hjá gríska slagverksleikaranum Katerinu Anagnostidou.

„Við erum saman í tríóinu KIMI ensemble, ásamt harmóníkuleikaranum Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni. Við kynntumst við nám hér í skólanum og erum búin að spila saman í þrjú ár. Katerina og Jónas áttu stóran þátt í tónleikunum núna. Við fluttum meðal annars verk sem voru frumsamin fyrir okkur. Samsetningin slagverk, harmóníka og söngur er ekki alveg hefðbundin.“

Þórgunnur hefur búið í Köben í fimm ár og er enn á stúdentagörðum fyrir tónlistarfólk þar sem hún hefur æfingapláss.

„Ég ætla að vera hér aðeins áfram, svo notum við líka æfingahúsnæði Katerinu slagverksleikara. Búum á Amager, þar er hálfgerð Íslendinganýlenda.“

Þórgunnur sækir sér í aukinn kraft úr náttúrunni.
Mynd/Juliette Rowland.

Fullt að gera fram undan

Það er nóg að gera fram undan hjá Þórgunni. Þegar við tölum saman er hún einmitt að fara að syngja hlutverk Dídó í óperunni Dídó og Eneas í óhefðbundnum búningi, með listahópnum Biðstofunni, eða Kunstnerkollektivet Venteværelset, sem varð til í fyrstu lokun vegna Covid.

„Þá tókum við okkur til og sköpuðum sýningu á Zoom sem við settum svo upp í húsagörðum í Kaupmannahöfn síðasta sumar og hefur undið upp á sig,“ útskýrir hún og telur upp fleiri viðfangsefni á næstunni.

„Tríóið KIMI er að fara í vinnubúðir nú í júlí með tónskáldinu Þuríði Jónsdóttur sem er að semja við leikhúsverk, það er samnorrænt verkefni sem er enn í vinnslu, við munum flytja tónlistina og verðum hluti af sýningunni. Svo er ég að syngja á UNM - Ung Nordisk Musik, sem er hátíð í Árósum í ágúst. Auk þess er ég að sýna óhefðbundna uppsetningu á Messíasi á hinsegin dögum hér í Kaupmannahöfn og kem heim til Íslands í október með tríóinu vegna tónleika í röðinni 15:15.“

Hún nefnir líka frumflutning á tveimur nýjum verkum eftir tónskáldið Finn Karlsson – annars vegar verk fyrir KIMA ensemble og hins vegar kammeróperu sem hann skrifaði fyrir hana og kammerhópinn NJYD.

„Svo eru í bígerð ýmis óperuverkefni bæði í Kaupmannahöfn og heima; þar á meðal ný óperuuppfærsla á vegum Biðstofunnar. Ég hef gaman af að vinna með tónskáldum og frumflytja ný verk, líka að standa á leik- og óperusviði – ég tala nú ekki um þegar maður fær að flytja nýja óperu! En ég er einnig mikið að syngja barokk – sem og síðrómantísk verk, eins og tónleikaprógrammið gaf til kynna.“ ■